LÖGTÆKNI-KRATA-VIÐHORF?

Sæll Ögmundur.
Síðustu dagar hafa eðlilega snúist að nokkru um ábyrgð. Í tilfelli stjórnmálamanna má ekki gleyma að þeirra ábyrgð snýr að nokkru að því hvort þeir rækti skyldur sínum gagnvart kjósendum . Þangað sækja þeir sitt umboð og þangað svara þeir til ábyrgðar - þó svo kjósendur sjálfir geti aðeins sagt skoðun sína á því efni á fjögurra ára fresti. Þegar stjórnmálamenn tala um ábyrgð þessa dagana virðast þeir allir líta sem svo á að þeir svari aðeins til ábyrgðar gagnvart lögum. Hvernig á að skilja það á annan hátt þegar allir sem víkja vegna fjölda ávirðinga gera það tímabundið, eða á meðan rannsókn saksóknara stendur yfir. Þá má spyrja hvort skýrslunni miklu hafi aðeins verið ætlað það hlutverk að afla gagna til frekari rannsóknar?
Eftir hverju bíðum við næst - áfrýjunarferli fyrir dómstólum? Fyrir mér er útilokað að túlka það sem svo að þeir sem stígi til hliðar tímabundið séu með skýrum hætti að standa skil á ábyrgð sinni gagnvart kjósendum og hvernig þeir ræktu skyldur sínar. Þeir eru miklu fremur að sýna samfélaginu löngutöng með því að segja "ég ætla að reyna að bíða þetta af mér og vonandi kem ég aftur". Í þessu efni fá stjórnmálamenn stuðning frá lögtæknikrataviðhorfi nefndarinnar sem vilja aðeins líta til ábyrgðar ráðherra sem sátu í tilteknum stól í síðustu ríkisstjórn. Það sýnir sig hinsvegar að það er ekkert samhengi á milli þess hvernig nefndin lýsir framvindu og hvar hún staðsetur ábyrgð. Nefndir lagði á það ríka áherslu í kynningunni að hagstjórn síðustu ára hefði nánast með markvissum hætti skapað þá "ofurbólu" og skuldsetningu hagkerfisins sem nauðsynleg var. Nefndin tiltekur að ekkert var gert til að bregðast við í ríkisfjármálum sem skildi Seðlabankann einan eftir úti á túni með sína stýrivexti ógnarháa.
Síðan lýsir nefndin hver sé ábyrgur og tiltekur Björgvin. Þetta er fjarstæðukennt. Hin pólitíska ábyrgð liggur mun víðar og þetta fær mann til að hugsa að öll þessi æfing sé einn stór pólitískur kattarþvottur. Með því á ég við að ábyrgð er skilgreind eins þröng eins og mögulegt er. Nokkrum er kastað fyrir úlfana og alls ekki þeim sem báru mesta ábyrgð á hruninu. Hvar er Davíð sem forsætisráðherra - hvar er Halldór og hvar er Ingibjörg?
Að endingu vil ég fá að nefna annað dæmi um tilraun til kattaþvottar sem eru ummæli Jóhönnu um ábyrgð Samfylkingar. Þar reiðir hún fram frasa sem hún notaði síðasta haust um að ábyrgð Samfylkingar sé takmörkuð við það að hafa verið í ríkisstjórn þar sem Sjálfstæðisflokkurinn gerði mistök. Þau eru búin að fórna Björgvin og nú á að kappkosta að fleiri Samfylkingarmenn þurfi ekki að svara til ábyrgðar. Niðurstaðan af þessu er sú að skýrslan gerir ekkert gagn ef við nemum staðar hér. Kjósendur geta bara farið fram á einn hlut og það er að fá að kjósa.
Árni V.

Fréttabréf