LOGÓ Á STYRKÞÆGA

Í ljósi umræðu um styrkveitingar fyrirtækja til þingmanna, sem í sumum tilfellum þykja býsna ríflegar, hefur komið upp umræða um hvort ekki væri hægt að koma á ákveðnu kerfi við þetta. Hugmyndin er reyndar fengin að láni frá Formúlu 1 og Nascar kappakstrinum en mundi henta vel fyrir "styrkþæga" Íslenska þingmenn. Hugmyndin er semsagt sú að styrþægir þingmenn verði með ásaumuð logo styrkveitenda sinna á jakkafötunum, nú eða drögtunum eftir kyni auðvitað, svipað og Formúla 1 og Nascar ökumenn eru með á keppnisgöllum sínum. Jafnvel mætti ganga lengra en að merkja einungis jakkafötin, bílar þeirra gætu líka verið með logo styrkveitenda í bak og fyrir. Sé það hægt á kappakstursbílum, nú eða jafnvel strætó, þá væri hægt að merkja bíla þingmanna á sama hátt. Með þessu móti þyrftu umræddir þingmenn ekkert að fara í launkofa með hverjir væru kostunaraðilar þeirra og gætu því gengið erinda kostunaraðila sinna án nokkurs pukurs. Alþingi sjálft gæti jafnvel hagnast á þessu fyrirkomulagi. Í ræðupúlti á alþingi gæti forseti Alþingis jafnvel kynnt viðkomandi þingmann sem svo; "nú tekur til máls háttvirtur þingmaður austvesturkjördæmis, Jón Jónsson. Þessi ræða er í boði Baugs, Bónus með bestu verðin" Þetta fyrirkomulag gæti jafnvel skapað umtalsverðar auglýsingartekjur enda er sjónvarpað beint frá Alþingi og synd að nýta þessar útsendingar ekki í annað en að sýna litlausar og klisjukenndar ræður þingmanna sem yfirleitt enginn nennir að fylgjast með,- ekki einusinni þingmenn í þingsal sem oftast virðast vera að gera eitthvað allt annað en að hlusta á ræðumann í púlti.
Aðalsteinn Stefánsson

Fréttabréf