Fara í efni

FÓLK ÚR ÖLLUM FLOKKUM...

Heill og sæll Ögmundur. Ég get tekið undir hvert orð sem þú ritar í pistli þínum "LÝÐRÆÐIÐ ÞARF NÆRINGU - STJÓRNVÖLDIN AÐHALD". Það er nú það óvenjulega í stöðunni að við skulum nú loksins vera sammála eftir öll þessi ár. Ég, sjálfstæðismaðurinn og þú í Vinstri Grænum. Hvað er að gerast í íslenskum stjórnmálum? Við áttum reyndar afar gott samstarf innan BSRB til margra ára. Það sem getur komið okkur, þjóðinni, út úr þessum vandræðum er að menn eins og þú, sem starfar af heilindum í stjórnmálum, komist til áhrifa og veljir þér samstarfsmenn sem eru í þessu á sömu forsendum og þú. Vandinn er hins vega bara þessi : Það eru til stjórnmálamenn í öllum flokkum, sem starfa að heilindum. Þetta þýðir ekki nema eitt og það er að þú verður að mynda stjórn með öllum þessum aðilum úr öllum flokkum. Ég veit að þú veist, eins og ég, hvaða fólk þetta er sem þú þarft að fá til liðs við þig. Gangi þér sem best að koma þínum/okkar baráttumálum áfram í þinginu. Mér fannst rétt að segja þér af því að það eru margir sjálfstæðismenn sem standa að baki þér.
Páll Svavarsson