BURT MEÐ GERVISIÐFERÐI!

Nýverið hjó ég eftir því að skattrannsóknarstjóri stóð agndofa af undrun yfir því hve menn væru orðnir færir og snöggir að skjóta undan fjármunum. Vísa ég þar til umrædds atviks í tilfelli Baldurs Guðnasonar fyrrv. forstjóra Eimskips. Embættismaður slíkur sem haft hefur til umráða 18 mánuði til aðgerða og athafna ætti að mínu viti í dag að hafa titilinn fyrrv skattrannsóknarstjóri. Hvílíkt borðálegg, að bjóða alþýðu manna uppá slík ummæli.
Eina svölunin sem hægt er að veita hinum almenna streðandi manni, sem hvorki hefur aðgang að kaupréttum né kennitöluflakki svo ekki sé talað um runustofnun eignarhaldsfélaga, er að þessum aðilum sé atað uppúr drullunni svo undan svíði. Myndlíking sem þessi túlkar reyndar mjög væga meðhöndlun aðila. Hætta síðan þessu gervisiðferði þar sem menn keppast við að bera blak af meintum svikamönnum. Setningin þar sem segir að þessi og hinn virðist ekki hafa aðhafst neitt ólöglegt er nú orðin útjöskuð. Almenningur vill bara sjá hana fara í súrtunnu. Ég segi; frekar að gera þessum mönnum ljóst strax í upphafi að almannahagsmunir krefjist þess að farið sé fram með offorsi og þeim gert að sæta stöðu sem fylgjendur sinuelds um fjárhirzlur.
Þá eru örlitlar vangaveltur um (gervi)siðferði kúlulánaþingmanna, tel ég það alveg víst að muni þeir ekki bæta sér sjálfviljugir í hóp þeirra þingmanna er þegar hafa mátað á sig myllusteininn þá verði að búa þannig um hnúta að öðrum verði kleift að sjá til þess. Síðan er það hinn almenni ofurlántökuþingmaður, hvernig verja menn það eiginlega að vera með lán frá bönkunum uppá eitt, tvö, og þrjú hundruð milljónir króna? Hvílík launavelta eða þannig. Nei, almenningur er illur og það hefur sýnt sig að þegar almenningur verður illur þá er ekki fýsilegt að standa brattur og koma með setningar um rugl eins og það að "miðað við þau lönd sem við gjarnan berum okkur saman við og þátttöku okkar í alþjóðastjórnmálum" og meira bla bla bla. Slík svör færa engum mat á diskinn eða möguleika á atvinnu.
Að endingu er það meðvituð niðurstaða mín að ég kem til með að kjósa þann flokk sem boðar tafarlausa afturköllun á umsóknaraðild okkar að EB. Mig grunar að þar standi ég ekki EINN.
Kveðja,
Óskar K Guðmundsson, fisksali.

Fréttabréf