Fara í efni

TOMMA OG JENNA STJÓRNMÁL

Sæll Ögmundur.

Mikið vatn er runnið til sjávar frá því forsætisráðherra þrumaði yfir samstarfsmönnum sínum í Alþýðuflokknum í Keflavík: Minn tími mun koma! Þingmaðurinn meinti það sem hún sagði og hefur sjálfsagt legið lengi yfir ræðunni sem hún flutti og samdi sjálf. Nú er öldin önnur.

Nú er það Tomma og Jenna kynslóðin sem skrifar ræður fyrir forsætisráðherra og annríkið greinilega svo mikið að ráðherrann gefur sér ekki tíma til að fara yfir ræðuna fyrirfram, en fer þess í stað með hana eins og páfagaukur. Kattaminnið ræðunnar staðfestir þetta.

Reyndur jafnaðarmaður með 32 ára þingreynslu sem hefur helgað krafta sína baráttu fyrir lýðræðislegum leikreglum gerir ekki meðvitað stjórnunarstíl Halldórs Ásgrímssonar að sínum. Ekki nema náttúrulega eitthvað hafi komið fyrir viðkomandi.

Önnur staðfesting á því að forsætisráðherra skrifaði ekki Tomma og Jenna ræðu sína sjálf er hugmyndin um að leggja niður 80 ríkisstofnanir. Þær hugmyndir eru jafn merkingalausar og að þykjast vera að byggja upp norrænt velferðarkerfi í miðju hruninu. Norrænt velferðarkerfi sem byggist á bótaskerðingu, skerðingu velferðarþjónustu og aumingjagæsku gagnvart auðmönnum!

Hvaða stofnanir er ráðherra að tala um? Hvaða 2000 ríkisstarfsmenn eru það sem sitja daginn inn og út og naga blýanta? Ef ekki væri fyrir aumingjaskapinn væru bæði BSRB og BHM samtökin búin að krefjast fundar með forsætisráðherra til að fara yfir þessi ummæli hans og fá upplýsingar um hvernig staðið verður að uppsögnum og niðurlagningu stofnananna. Mér finnst framkoma af þessu tagi gagnvart starfsmönnum ríkisins fyrir neðan allar hellur.

Í alvöru þjóðfélagi, þar sem eru alvöru fjölmiðlar væri búið að sauma svo að forsætisráðherra að hún yrði vængstífð til ársins 2012. En ekki hér! Maður veltir fyrir sér hvort það eru samfylkingamenn úr hagfræðistétt, sem í bland við Tomma og Jenna kynslóðina útbúa texta dagsins oní ráðherra. Í því sambandi dettur manni í hug einhverjir þeirra sem menntuðu útrásvíkingana í viðskiptavísindum á sínum tíma, bankaráðsmenn Samfylkingarinnar í Seðlabankanum, aðstoðarmenn viðskiptaráðherra, eða ráðsmenn í fjármálaeftirlitinu; allir virkir í aðdraga efnahagshruns.

Sjálfstæðisflokkurinn, Viðskiptaráðið, Samtök atvinnulífsins, Íslensku heildsalasamtökin, Samtök iðnaðarins og aðrar hagsmunastofnanir einkaframtaksins hafa allar haldið námsstefnur og ráð um eftirlitsiðnaðinn og hvernig hann og tengdar stofnanir hafa þvælst fyrir dugmiklum einkaframtaksmönnum sem viljað hafa búa þjóðinni, og sér, glæsta framtíð. Nú er forsætisráðherra norrænu velferðarstjórnarinnar farinn að syngja í þessum kór. Verði ykkur VG-mönnum að góðu, eða þið viljið kannske taka ráðherra á orðinu? Leggja til eftirfarandi: Leggja niður sendiráð í Stokkhólmi, Osló, Vín, París, Tókíó, og London. Fá norska seðlabankann til að taka að sér verkefni þess íslenska og segja upp starfsfólkinu þar. Leggja niður Sjúkratryggingastofnun, Tryggingastofnun ríkisins, Fjármálaeftirlitið, Samkeppniseftirlitið, Fiskistofu, Háskólann á Bifröst og Akureyri, og allar sjúkrastofnanir aðrar en einn spítala á hverju landshorni. Það kann að vera rétt hjá þeim sem því halda fram að efnahagslífið komist hratt út úr hruninu. Stjórnmálin eru enn á niðurleið og það sem verra er, það sér ekki til botns. Eftir á ekki skrítið að forseti skuli hafa efnt til þjóðaratkvæðigreiðslu. Kannske er ESB aðild leið út úr þessu rugli?

Hafsteinn