Fara í efni

HVERRA ERU REGLURNAR?

Sæll Ögmundur.

Hér að neðan eru þrjár tilvitnanir af http://visir.is/section/FRONTPAGE.  Þær eru valdar af handahófi og eru svona: "Afskrifa þarf líklega um fjögurra milljarða króna skuld félags í eigu Ármanns Þorvaldssonar, fyrrverandi forstjóra Singer & Friedlander. Félagið hélt utan um eign Ármanns í Kaupþingi og eru eignir þess nú metnar á núll krónur." (visir.is 26.10 2010)

"Embætti sérstaks saksóknara rannsakar enn hvort niðurfelling persónulegra ábyrgða starfsmanna Kaupþings vegna hlutabréfakaupa í bankanum samræmist lögum...Stjórn Nýja Kaupþings, nú Arion, ákvað á sínum tíma að bíða með að taka endanlega ákvörðun um niðurfellingarnar þar til saksóknari hefði lokið rannsókninni. Lánin, alls 47,3 milljarðar, voru þó færð yfir í Nýja Kaupþing á núlli, að því er Viðskiptablaðið fullyrti í síðustu viku." (visir.is 24. febrúar 2010)

"130 starfsmenn Kaupþings fengu 47,3 milljarða króna að láni frá bankanum til hlutabréfakaupa. Gamla stjórn bankans ákvað á stjórnarfundi tveimur vikum áður en að bankinn féll að fella niður allar persónulegar ábyrgðir starfsmannanna vegna lánanna." (visir.is 22. febrúar 2010)

Ýmislegt bendir til að "ábyrgarvæðing" af þessu tagi standist lög. Að auðmennirnir sem aldrei skyldi greiða fyrir sleppi, þrátt fyrir meiningar um annað. Spurningarnar sem fjölmiðlar, t.d. Morgunblaðið, ætti að leita svara við nú eru meðal annars þessar þessar: Var það í tíð Vilhjálms Egilssonar, stöðugleikamanni og þáverandi framkvæmdastjóra Verslunarráðs og formanns efnahags- og viðskiptanefndar sem þessar reglur urðu til? Var þetta gert að kröfu Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins? Studdi ASÍ lagabreytingar sem fæddu af sér þessar ruglreglur?

Það þarf að setja heimilisfang á hrunið og ábyrgðina. Með nákvæmni gæti verið að þeir sem mest sjást og heyrast í fjölmiðlum nú óskuðu sér framtíðar, án þess að þurfa að burðast með fortíðina. Það er kannske það sem áberandi menn í Borgartúni eru einmitt að gera um þessar mundir.
Kv.
Ólína