Fara í efni

ÝMSUM HOLL LESNING!

Komdu sæll Ögmundur.
Fín er síðan þín og ötull ertu við skriftirnar. Takk fyrir það. Sammála er ég þér um furðulegheitin í stjórnmálunum á Íslandi nú um stundir. En kannski hefur það alltaf verið svona. Ég þekki það ekki nógu vel. Annars var ég að lesa ævisögu Þórbergs í tveimur bindum eftir Pétur nokkurn Gunnarsson. Langaði til að deila því með þér sem stendur um klofning Alþjóðasambands jafnaðarmanna með tilkomu Sovét; annars vegar krata og hins vegar komma. "Þórbergur á vini í báðum, Vilmundur er krati, Erlendur í Unuhúsi og Kiljan hallast á sveif með kommum. Og góðvinkona Þórbergs, Kristín Guðmundardóttir, er kommi þótt eiginmaðurinn Hallbjörn sé krati - línan skirrist ekki við að skilja á milli hjóna. Ekkert þeirra var þó flokksbundið í hinum nýlega stofnaða kommúnistaflokki. Margt í fari flokksbundinna orkar reyndar hlægilega á Þórberg, hátíðleiki vekur ævinlega upp í honum púkann sem skopast. Þar að auki gangast félagar í kommúnistaflokknum undir aga sem Þórbergi er lítt hugnanlegur. Til dæmis eru skoðanaskipti ekki leyfð nema að vissu marki, um leið og flokksforystan hefur komist að niðurstöðu ber félögunum að beygja sig undir hana, sama hvað þeir kunna að hugsa sjálfir. Sumt minnir hreinlega á Hjálpræðisherinn, flokksmenn stíga á stokk og taka til við að gagnrýna sjálfa sig á samkomum. Og meðan aðrir flokkar keppast við að afla sér fylgismanna setja kommarnir reglulega í gang hreinsanir þar sem svo og svo mörgum flokksmönnum er úthýst! Sem breytir því ekki að þeir berjast fyrir samfélagi sem Þórbergi er mest að skapi. Þar sem efnahagslífið er skipulagt í því augnmiði að færa fjöldanum jöfnum höndum líkamlegar nauðsynjar og andlega næringu."
Datt þú í hug, og staðan í þinni annars ágætu hreyfingu, við lesturinn. Og hollt gæti verið honum Pétri, ötulum síðuskrifara þínum, að lesa bók nafna síns, bestu kveðjur með von um ásættanlega niðurstöðu í Icesave.
Óháður kjósandi vg