Fara í efni

VG: SVARIÐ LIGGUR Í HRUNINU

Sæll Ögmundur.
Þakka þér fyrir greinarnar um einkasjúkrahús í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Ég treysti því eins og þú, að læknar hugsi sig nú um og geri sér grein fyrir því í fullri alvöru hvað felst í einkasjúkrahúshugmyndunum Róberts Westmanns og Árna Sigfússonar, og hvar hagsmunir þeirra liggja. En það eru líka aðrir sem þurfa að hugsa sinn gang því fleiri bera ábyrgð á einkavæðingaráformum íslensku heilbrigðisþjónustunnar á Keflavíkurflugvelli.
Kadeco, fyrirtæki í eigu íslenska ríkisins, er gerandi og forsendan í einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar syðra. Það fyrirtæki starfar samkvæmt þjónustusamningi við fjármálaráðuneytið. Fjármálaráðherra er Steingrímur J. Sigfússon. Kadeco hefur þegar ákveðið að gera upp hersjúkrahúsið í hinni gömlu herstöð fyrir milljarða og ætlar svo að leigja Róberti Westmann aðstöðuna. Ekki ósvipuð aðferðafræði og gagnvart Háskólanum í Reykjavík, enda einstaklingar og fyrirtæki sem tengjast Fasteign, sem á þau mannvirki í Reykjanesbæ sem Árni Sigfússon seldi til svo aftur að leigja ekki langt undan.
Einkaspítalinn á að vera fyrir útlendinga segja þeir. Þau áform halda hvorki lagalega né rekstrarlega, en það hljóta ráðuneytismenn að vita. Vegna þjónustusamningsins við fjármálaráðuneytið hlýtur viðskiptahugmyndin, til dæmis kostnaðurinn við endurgerð hersjúkrahússins og rekstraráætlanir til næstu tíu ára að liggja á borði fjármálaráðherra, eða að minnsta kosti hafa komið þar við.
Í heilbrigðisráðuneytinu, sem VG ráðherra stjórnar líka, hljóta svo að liggja fyrir úttektir á því hvert einkasjúkrahús af þessu tagi gæti leitt okkur, og hvort það stenst til dæmis lagalega að byggja hér upp sjúkrahús, sem íslenskir EES borgarar mega ekki sækja. Eða á ríkið að vera varadekkið sem gripið verður til þegar viðskiptaáætlanirnar renna út í sandinn? Er kannski gert ráð fyrir þjónustusamningi við hersjúkrahúsið? Var það á stefnuskrá VG að byggja upp tvöfalt heilbrigðiskerfi? Þá hljóta menn í fjármálaráðuneytinu og heilbrigðisráðuneytinu að hafa metið, áður en Kadeco tók ákvörðun um uppbyggingu hersjúkrahússins, áhrif uppbyggingarinnar á heilbrigðisstéttavinnumarkaðinn með tilliti til launaþróunar, menntunarkostnaðar og annars afleidds kostnaðar sem samfélagið hér þarf að bera. Fjármálaráðuneytismenn hljóta líka að hafa spáð í heildarútgjöldin til heilbrigðismála og þeir hljóta að átta sig á því að milljarðar í einkavætt hersjúkrahús verður engin viðbót heldur verður sú sneið tekin af heilsugæslunni í landinu, frá sjálfstæðum sérfræðilæknum og af minni sjúkrahúsum úti um land.
Ætli þetta sé skipulagt að kröfu AGS? Ætla kannski lífeyrissjóðirnir að fjármagna þetta? Ég held að einkasjúkrahúsið í Miðnesheiðinni gæti hæglega orðið banabiti VG gagnvart kjósendum þegar þeir um síðir átta sig á hvert það leiðir og hver kostnaðurinn verður fyrir almenning í landinu. VG ráðherrarnir sem í hlut eiga ættu að fá sér kaffi og kleinuhring, að amerískum sið, og spyrja sig einnar spurningar: Hvernig gátum við látið plata okkur svona? Þau þurfa ekki að svara, hin einfalda spurning nægir.
Ólína