Fara í efni

HÆLI Á MIÐNESHEIÐI?

Árna Sigfússyni bæjarstjóra er áfram um að skapa atvinnu í Reykjanesbæ. Það er gott. Hann vill til þess aðstoð frá Róberti Wessman. Það er ekki gott. Af ótal mörgum ástæðum sem öllum ætti að vera kunnugt um. Hin versta er að Wessman ætlar að stofna einkaspítala undir fölsku flaggi. Hann segir að þar verði einungis útlendingar læknaðir - þarna verði bara arðbær innflutningsvara í liðskipta- og offituaðgerðum. Starfsemi sem skili samfélaginu gjaldeyri og gróða.
En þetta er ekki rétt. Þetta er blekking - útsmogin tilraun útrásarvíkings til að ryðjast inn í sameiginlegt heilbrigðiskerfi þjóðarinnar. Fyrsti fleygurinn til að smeygja einkaaðilum inn í spítalarekstur sem sameiginlegir sjóðir landsmanna verða svo að bera kostnað af. Það er full ástæða til að spyrja: Hafa stjórnvöld ekkert lært af hruninu? Á nú að gefa innrásaröflum lausan tauminn rétt eins og útrásarstofninum? Á að leyfa loftbólusnillingunum að eyðileggja sameiginlegt velferðarkerfi þjóðarinnar á nokkrum árum? Og ætla þá stjórnvöld að taka við brunarústunum - takast á við frjálshyggjuhrun nr. 2 eftir fáein ár? Hvar eru stjórnvöld eiginlega stödd - hafa þau ekkert lært? Og hefur Róbert Wessman heldur ekkert lært? Getur hann ekki skilið að þjóðin vill ekkert með þetta óþurftar framtak hans að gera. Hún vill ekki að okkar sameiginlega velferðarkerfi verði sett í krumlur gróðapunga. Nóg er nú samt að snillingarnir tæru, skuldapungarnir, lögðu efnahagskerfi þjóðarinnar í rúst haustið 2008.
Sem betur fer eru ráðherrar VG að vakna; þeir sjá hættuna. Sjá meira að segja að það á að misnota fjármagn ríkisins. Nota sameiginlegt fármagn þjóðarinnar til að vippa innrásarvíkingum inn í heilbrigðismálin. En ráðherrarnir verða að grípa til harkalegra aðgerða og stöðva Wessman og Co. Ef ekki verður flokkurinn rúinn trausti - flokkur sem stóð vaktina af hörku gegn tilraunum Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks til að brjóta niður jafnan aðgang allra landsmanna að góðu heilbrigðiskerfi í þjóðareign. 
Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ ber umhyggju fyrir sínu fólki. Hann vill vinna bug á atvinnuleysinu. Um það skal enginn efast. En þetta getur bæjarfélagið sjálft gert - það þarf enga ævintýramenn til. Það vissu sjálfstæðismenn forðum, m.a. þegar þeir byggðu upp öfluga bæjarútgerð í Reykjavík eftir seinna stríð. Og þetta ættu sjálfstæðismenn að vita betur nú en nokkru sinni fyrr. En hvað er hægt að gera í Reykjanesbæ til að skapa atvinnu? Það er margt. Það er hægt að efla sjávarútveginn, ferðaþjónustu og sprotafyrirtæki í hátækniiðnaði. Og bæjarfélagið með Árna í broddi fylkingar getur líka innréttað betrunarhæli fyrir mörg hundruð manns. Fyrir fólkið sem kunni sér ekki hóf í græðginni - fólkið sem missteig sig hrapalega í ofsafenginni gróðafíkn. Fólkið sem setti samfélagið á hvolf. Svona starfsemi mundi skapa mörg hundruð störf og hún yrði kostuð af ríkinu. Og svo sannarlega yrði hún íslensku samfélagi arðbær.
Þjóðólfur