Fara í efni

GETUR RÍKISSTJÓRNIN BARA GERT EITT Í EINU?

Komdu sæll Ögmundur.
Ég hef áhyggjur af því að öll umræða um Icesave, sem þó er ágæt, valdi því að ekki sé tekið eftir því að ráðist sé harkalega að velferðarkerfinu, suðvesturlína fær stimpil frá ráðuneytinu og ríkisútvarpið sýnir eurovision sem innlent efni. Kannski er það rétt sem Sigmundur Davíð sagði að þessi ríkisstjórn getur bara gert einn hlut í einu. Ef það er rétt þá er það hræðilegt að þetta Icesave hafi tekið svona langan tíma og þá er baráttan fyrir lítið. Hvað finnst þér Ögmundur um niðurskurðinn í heilbrigðiskerfinu? Skiptir það bara engu máli að fullt af fólki sé að missa vinnuna sem hefur starfað við heilbrigðismál og grunnþjónusta sé skert? Getur verið að vinstri stjórnin svokallaða kunni bara eitt, og það er að fara eftir reiknilíkani. Mér sýnist sem svo að Guðlaugur Þór sé mættur með niðurskurðarhnífinn í ráðuneytið, keikur og óáreittur. Heyrist ekki múkk í vinstra fólki því ekki má styggja við ríkisstjórninni. Og þú talar um Icesave. Er þetta ekki eitthvað skakkt?
bestu kveðjur,
Starfsmaður á Landspítala

Þakka þér kærlega bréfið. Já, ég tala um Icesave, en einmitt vegna þess að það er samhengi þarna á milli, þ.e. Icesave og niðurskurðarins á Landspitala. Við erum að tala um alvöru peninga, alvöru niðurskurð, alvöru atvinnumissi. Þess vegna eigum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til að fá betri niðurstöðu í Icesave en nú er á borðinu. Verkefnið er ekki Icesave heldur vörn fyrir Landspítalann.
Kv.
Ögmundur