Fara í efni

FORÐUMST DÓMHÖRKU

Heill og sæll Ögmundur.
Inni á Eyjunni fann ég bloggfærsluna þína sem geymir varnaðarorðin um að forðast dómhörku og þakka þér kærlega fyrir orð þín í henni. Það eru orð í tíma töluð. Til gamans má vitna í Helgakver sem börn skyldu eitt sinn læra utan að. Þar segir um syndirnar:
"Syndirnar eru misstórar og verðskulda misjafna hegning. Sumar eru breyskleikasyndir, sprottnar af því að viljinn til hins góða er eigi nógu sterkur, sumar ásetningssyndir, beinlínis sprottnar af illum vilja. Breyskleikasyndir koma þrávallt fyrir hjá guðhræddum mönnum en ásetningssyndir hjá óguðlegum. Breyskleikasynd er oft hendir sama mann heitir brestur, en sú synd sem orðin er að drottnanda vana er kölluð löstur. Ef hinn óguðlegi læst vera guðhræddur er hann hræsnari; ef hann hirðir ekkert sáluhjálp sína er hann andvaralaus; en ef hann er blygðunarlaus, kemst af engu við og lætur sér af engi segjast er hann forhertur og er þá ásigkomulag hans hið háskalegasta sem hugsast getur."
Með kærri kveðju og góðum óskum,
 ES