Fara í efni

FLUGVÉLAR GERÐAR UPPTÆKAR

Sæll Ögmundur.
Það er svo gaman að háskólasamfélaginu. Frá því forseti Íslands bjó til efnislegt vald úr afstrakt rétti þjóðarinnar hafa félagsvísindamenn, heimspekingar, lögfræðingar og stjórnmálafræðingar keppst við að útskýra fyrir okkur dauðlegum muninn á fulltrúalýðræði, þingræði og misskilningi forsetans. Fæstir sérfræðinganna, fulltrúar hinna talandi stétta, haft fyrir því að kíkja yfir þingmannalistann og velta fyrir sér hvaðan þingmennirnir 63 koma og hverja þeir eru fulltrúar fyrir. Einn eða tveir eru fulltrúar ófaglærðra verkamanna og kvenna, einn eða tveir gætu flokkast sem fulltrúar faglærðra, restin eru fulltrúar hinna talandi stétta. Glæsilegir fulltrúar stéttaþjóðfélagsins sem nú kemur æ betur í ljós. Raunar ættum við að gera meiri kröfur til fulltrúa háskólasamfélagsins, krefjast aukinnar gagnrýni af hálfu prófessora og vísindamanna. Við eigum ekki að leyfa okkur að láta kyrrt liggja þegar prófessorar fara með fleipur í útlöndum. Fyrir fjórum mánuðum var viðtal við hagfræðiprófessorinn Þórólf Mattíasson í norsku blaði. Prófessorinn gengur í viðtalinu hart fram í að sannfæra lesendur norska blaðsins um að þjóðin verði að gera upp skuld bankanna við Hollendinga og Breta: „Prófessorinn dregur upp alvarlegar afleiðingar þess ef samningur er ekki kominn á áður en löndin krefjast þess að fá greitt í haust. - Við gætum séð það fyrir okkur að flugvél frá Icelandair yrði gerð upptæk á Heathrow flugvellinum." sagði hagfræðiprófessorinn fyrir fjórum mánuðum. Gerum meiri kröfur til prófessoranna.
Kveðja,
Jóna Guðrún
http://e24.no/utenriks/article3308798.ece