Fara í efni

ER ÁBYRGÐAR-LEYSI AÐ HAFNA ICESAVE?

Það er í sjálfu sér ekki erfitt að vera á móti því að þurfa að greiða háar fjárhæðir úr landi eins og fylgja Icesave samningnum. Margir sem eru á móti Icesave samningum spila nokkuð mikið á þjóðarrembing og hvað allir eru vondir við okkur, sérstaklega Bretar. Vandamálið með þá sem eru á móti Icesave samningum er það að þeir hafa aldrei komið með neinar tillögur um það hvað taki þá við og hvaða afleiðingar menn telja að höfnun hans hafi. Hver er fórnarkostnaðurinn? Ef lánalínur lokast, lán frá AGS o.fl. verða stöðvuð, uppbygging efnahagslífsins frestast. Hvað sjá menn fyrir sér að gerist á næstu 12 - 24 mánuðum? Getur verið að við þurfum bara engin lán og/eða liggur ekki á þeim? Mun Landsvirkjun og fleiri fyrirtæki eiga auðvelt með að endurfjármagna sig ef ekki opnast fyrir erlend lán næstu 12-24 mánuði? Er hugsanlegt að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið verði sagt upp og er það kannski í lagi? Ef við höfum ekki efni á Icesave hvað með öll hin lánin sem lenda á okkur sem eru 4-5 sinnum meiri og eru á verri kjörum? Lendum við í viðskiptaþvingunum og höfum við efni á því? Ef Icesave málið fer fyrir dómstóla og niðurstaðan verður að Íslenska ríkið beri fulla ábyrgð á öllum innistæðum eins og ríkið ábyrgðist innistæður hér á landi, þá fellur öll skuldin á okkur, líka umfram tryggingaverndina, er það í lagi og höfum við efni á því? Þeir sem eru á móti samningum þurfa að stilla upp raunhæfri mynd um það sem þá kann að taka við. Það er of ódýrt að spila á þjóðernisrembu og vera á móti hlutum út af því að útlendingar eiga í hlut. Eins og það sé í lagi að svíkja erlenda innistæðueigendur en ábyrgjast á innlendum. Koma þarf með tillögur og greiningu en ekki ábyrgðarlaust hjali um að allir séu vondir við okkur og sé mikið í mun að niðast á þjóðinni. Ég tel að siðferðilega þá berum við þessa ábyrgð þó ekki sé það ljúft. Stjórnmálamenn okkar héldu fram bakábyrgð ríkisins og ítrekað bentu á að engin hætta væri á ferðum. Eftirlitsstofnanir okkar brugðust o.s.frv. Þá tel ég fórnarkostnað þess að fella samninginn meiri en að samþykkja hann.
Kveðja,
Kristján

Þakka bréfið. Þú vekur máls á ýmsum spurningum sem sumar hafa verið ræddar, aðrar alltof lítið. Eitt vil ég þó nefna, og það er vísan í að uppbygging atvinnulífs hafi frestast vegna Icesave. Þetta þykir mér hálfsannleikur í besta falli. Ýmsar atvinnugreinar hafa þegar rétt úr kútnum, aðrar eru vissulega þjakðar vegna erlendrar skuldsetningar og vilja nú niðurgreiðslu skattborgarans með óheyrilegum og rándýrum gjaldeyrisforða sem AGS hefur verið að reyna að þröngva upp á okkur. Í mínum huga stendur baráttan um að lágmarka skuldsetningu ríkisins jafnvel þótt það leiði til alvarlegra tímabundinna þrenginga. Um lagalegar og siðferðilegar hliðar málsins standa deilur og er ég þér ekki sammála í því efni. Spurningin snýst um það í mínum huga að hvaða marki þjóðfélagið er ábyrgt þegar kerfishrun verður. Þá verð ég einnig að segja að tal um þjóðrembu finnst mér ekki viðeigandi þegar bent er á það ofríki sem´Íslensdingar hafa óumdeilanlega verið beittir í þessu máli. Þótt íslenskir fjármálamenn hafi upp til hópa komið fram á óafsakanlegan hátt breytir það ekki þeirri staðreynd að hryðjuverkalög Breta ollu gríðarlegu tjóni á íslensku fjármála- og efnahagslífi. Þvinganir Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þykja mér þess eðlis að við hljótum að gagnrýna þær harðlega án þess að verða með réttu sökuð um þjóðrembu!
Síðan eru á þessu máli ýmsar aðrar hliðar. Til dæmis hef ég verið þeirrar skoðunar að stjórnarandstaðan myndi að uppistöðu til samþykkja svipaðar lausnir og nú eru á borðinu. Er ég þar sérstaklega að vísa til Sjálfstæðisflokksins sem á sínum tíma lofaði að borga það sem upp var sett! Þetta er nokkuð sem þingmenn stjórnarmeirihlutnas hljóta að velta fyrir sér þegar þeir taka sínar ákvarðanir.
Með kveðju,
Ögmundur