VALDBEITINGAR-MENN

Vinkonur mínar eru margar hverjar óánægðar með þig. Þær sætta sig ekki við það sem þær kalla daður við Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn. Þær skilja ekki hugmyndina um að þú skulir vilja að þingheimur takist á við Icesave-málið óbundinn og án tilskipana ríkisstjórnar. Þeim finnst vont að þú skulir hafa yfirgefið ríkisstjórnina fyrirvaralaust. Í okkar hópi er ég ein í stórum minnihluta.

Ég tók það ekki nærri mér þegar þú kvaðst þeirrar skoðunar að framsóknarformaðurinn hefði verið skaplegastur í umræðunum um stefnuræðu ríkisstjórnarinnar. Mér fannst hann komast vel að orði og mér hlýnaði um hjartaræturnar þegar hann hældi þér með beinum hætti og ekki óbeinum, eins og flokkssystkin þín gerðu. Ég er líka ein um að sjá ekkert athugavert við að veita Morgunblaðinu viðtal þótt Davíð Oddsson sé þar ritstjóri. Mér finnst heldur ekkert að því að vilja gefa sumum þeirra, sem með afskiptaleysi sínu bera nokkra ábyrgð á hruni efnahagslífsins, kost á því að bæta ráð sitt með því að taka, með ábyrgum hætti, þátt í að skapa þjóðarsamstöðu um að gera Icesave-reikninginn betri fyrir þjóðina undir kjörorðinu 63-0.

Ég skildi þig þannig, kannski var það misskilningur, að þú vildir með þessu kasta líflínu til flokkanna þriggja, Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar, svo ég telji þá nú alla upp í réttri ábyrgðarröð. Að mínum dómi hljóp Samfylkingin af strandstað, Framsóknarflokkurinn áttaði sig ekki á að skipið er strandað, og Sjálfstæðisflokkurinn, hann tók líflínuna, en láðist að festa taugina við mastrið, og lenti fyrir bragðið í hafrótinu.

Í vinkvennahópnum hef ég haldið fram þeirri skoðun minni að Sjálfstæðisflokkurinn hafi í sumar dæmt sig úr leik með því að ganga ekki alla leið, klára málið, og greiða atkvæði með málinu öllu. Mér finnst strangt til tekið að þar með hafi flokkurinn sá komið aftan að þér og samherjum þínum í Icesave-málinu og átt þannig ríkan þátt í að gera Jóhönnu Sigurðardóttur það einfaldara að stilla þér upp við vegg og flæma þig úr ríkisstjórninni. Mér finnst líka að akkúrat þessi afleikur, svik kalla ég það, staðfesti þrekleysi forystu Sjálfstæðisflokksins nú og um leið undirstrikar sá flokkur að fyrir honum fara menn sem hugsa þröngt, menn sem ekki eru tilbúnir til að viðurkenna að þeir þurfi að sýna það með verkum sínum að þeir vildu biðja þjóðina afsökunar á andvaraleysi flokksins og trúgirni. Mér finnst líka að þessir forystumenn Sjálfstæðisflokksins eigi ekkert inni hjá þér. Þú kastaðir til þeirra spotta, þeir nýttu sér ekki möguleikann. Það mál er þar með búið. Ég er ekki viss um að samherjar þínir skilji þetta.

Valdið er skrítin skepna, vald í stjórnmálum. Stjórnmálamenn þrá valdið, en oftar en ekki er því misbeitt. Því sem stjórnmálamenn þrá svo heitt geta þeir ekki beitt, nema afar sparlega. Er það ekki misbeiting valds að stilla samherjum sínum upp við vegg í nafni flokks eða ríkisstjórnar? Er það ekki misbeiting valds að vilja taka ákvarðanir fyrir aðra, eða ráða yfir fólki? Er betra, eða réttlætanlegra, að beita valdi undir gunnfána meintrar norrænnar velferðarhyggju, en eyðileggingarstefnu frjálshyggjunnar, eða stalínisma? Ég sé ekki mun. Þess vegna held ég að við vinkonurnar séum ekki sammála. Ég segi við þær: Þið eruð valdbeitingarkonur. Þið treystið ekki fólki og sú sem ekki treystir fólki getur ekki skapað samstöðu meðal fólks, til dæmis um lausnina á Icesave-málinu. Eða um niðurskurðinn í velferðarkerfinu. En þær eru hins vegar þeirrar skoðunar að valdi hafi verið misbeitt þegar ákveðið var 18. desember 2008, að fjármagnstekjur lífeyrisþega á öllu árinu 2008 skyldu skerða bætur árið eftir, á árinu 2009, enda eiga þær flestar foreldra í þessum hópi lífeyrisþega. Svona er afstaðan til valds og valdbeitingar skrítin. Hverfist oft um okkur sjálf, eða hagsmuni okkar.

Vinkonur mínar eru margar hverjar óánægðar með þig. Ég er það ekki. Þær halda að þú viljir sprengja stjórnina. Ég skil þróun mála þannig að það viljir þú ekki. Ég skil þig á þann veg að þú kjósir að láta ekki beita þig valdi. Þverstæðan er sú að þeir sem þráðu valdið heitast, og áttu ekki að beita því gegn þér gerðu það, og halda völdum.

Hið pólitíska vald er skrítin skepna. Ég fagna því að þú skulir ekki hafa viljað láta beita þig valdi, en það gerði mig dapra að heyra samherja þín segja að þú hafir sagt af þér, ekki vegna valdbeitingar, heldur vegna þess að þú gætir ekki skorið niður í heilbrigðiskerfinu. Það er eitt form valdbeitingar.

Afsögn þín úr embætti ráðherra var bæði kolvitlaus, en óhjákvæmileg og kórrétt sbr. greinin í stjórnarskrá sem hljóðar svo: "Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum." Í skránni er merkilegt nokk ekki að finna hugtakið flokkur, eða flokkseigandi, en þar er farið nokkrum orðum um bæði alþingismenn og sannfæringu.

Flokkur hefur eðli málsins samkvæmt ekki sannfæringu heldur stefnu, hentistefnu, eða er stefnulaus. Þingmenn geta verið valdasjúkir eða áhugalausir um vald, en það skiptir mönnum ekki í flokka. Er það ekki frekar sú sannfæring að umgangast valdið sem við höfum þannig, að það hætti að skipta máli í sjálfu sér? Eru þeir ekki valdamestir sem eru þeirrar skoðunar, og felst ekki einmitt veikleiki hins í að mega til með að sýna vald sitt og beita?

Eftir stendur spurning vinkonu minnar: Hvað gerir Ögmundur nú?

Ólína  

Þakka bréfið. Þú gefur upp boltann Ólína. Þú munt fá svar - þegar þar að kemur.
Kv.
Ögmundur

Fréttabréf