Fara í efni

UPPGJÖF?

Sæll Ögmundur.
Hvaða skilaboð eru það til okkar, heilbrigðisstarfsmanna LSH, að um leið og við stöndum frammi fyrir stærsta niðurskurði heilbrigðissögunnar, þá hverfa tveir toppar í slíkri skyndingu af hólmi, að það sér undir iljar þeirra? Ég á við Huldu forstjóra sem fær athugasemdalaust ársfrí á þessum vátímum - og þig sjálfan. Tveir æðstu skipstjórnarmenn hverfa úr brú Landspítalans í sömu mund og brotsjórinn ríður yfir? Hvað eigum við, undirmennirnir að gera? Manna björgunarbátana og hverfa af skipinu? Hvernig er hægt að skilja brotthlaup þitt úr ráðuneytinu öðru vísi en svo, að skipstjórinn hefur gefist upp - og yfirgefur skip fyrstur manna - en ekki síðastur -eins og lög gera ráð fyrir?
Sigurður Örn Hektorsson, læknir á LSH

Þakka þér bréfið Sigurður. Það er greinilegt að þú tekur ekki alvarlega þær skýringar sem ég hef gefið á afsögn minni eða því sem fram kom í yfirlýsingum forsætisráðherra og annarra þeirra í ríkisstjórninni sem settu mér afarkosti: Annað hvort samþykkti ég það sem fyrir mig væri borið í Icesave-máli eða ríkisstjórnin spryngi. Það sem forsvarsfólk ríkisstjórnarinnar vissi var að hvorugt vildi ég, sprengja ríkisstjórnina eða kyngja óaðgengilegum vinnubrögðum. Þá var bara eitt eftir og það var að ég segði af mér. Hvað heilbrigðiskerfið áhrærir þá er ég afar leiður yfir því að skilja við Heilbrigðisráuneytið og fer því fjarri að það sé af uppgjöf eins og þú og ýmsir aðrir vilja ómaklega gera skóna.
Með bestu kveðju,
Ögmundur