Fara í efni

UM ÖRUGGA VARÐVEISLU LÍFEYRIS

Ég er alveg undrandi á þér Ögmundur að vilja að lífeyrissjóðirnir séu bara gerðir upptækir í þágu ríkissjóðs eins og þarna liggi hellingur af fé án hirðis ! Ég sé ekki hvernig við ellilífeyrisþegar eigum að komast af án lífeyrisgreiðslnanna sem við eigum í okkar lífeyrissjóðum. Og svo er fullt af fólki sem er að greiða í sjóðina af launum sínum og treystir á að fá sitt fé endurgreitt í ellinni. Það er nú ekki eins og Tryggingastofnun greiði svo háan lífeyri til ellilífeyrisþega að hægt sé að komast af á þeim aurum. Legg til að þú leggjist vendilega yfir hvernig kjörum aldraðra Íslendinga er háttað. Þar eru flestir pottar mölbrotnir og mannréttindi aldraðra fótum troðin þvers og kruss. Guðrún Jóhannsdóttir,
formaður Félags eldri borgara Álftanesi - og reyndar líka fulltrúi Landssambands eldri borgara í "samstarfsnefnd" við Tryggingastofnun. "Samstarfið" felst reyndar aðallega í að mæta til að heyra hvað starfsfólk TR stendur sig svakalega vel í vinnunni.

Sæl Guðrún og þakka þér fyrir bréfið. Ég er aldeilis ekki að tala um að gera lífeyrissparnaðinn upptækan! Ég vil þvert á móti koma honum í öruggustu vörslu sem til er í landinu og að auki tryggja að hann gagnist þjóðfélaginu vel. Ég er að tala um að lána ríki og sveitarfélögum þessa peninga með vöxtum í stað þess að lána þá á almennum markaði eins og ýmsir aðrir vilja. Ég er með öðrum orðum að tala um öryggi í stað óöryggis. Ég er talsmaður þess að passa eins vel upp á lífeyrissparnaðinn og nokkur kostur er og bið þig um að lesa áherslur mínar í lífeyrismálum sem fram komu í setningarræðu minni á þingi BSRB í síðustu viku. Sjá: https://www.ogmundur.is/is/fra-lesendum/42-thing-bsrb-sett
Kv.
Ögmundur