Fara í efni

STÓRSLYS FYRIR NÝJA ÍSLAND?

Erlendar lánastofnanir hafa þegar tapað 9.000 milljörðum króna!!! vegna lána til Íslendinga. Þess vegna er það skammarleg hegðun íslenskra þingmanna á Norðurlandaþingi að kvarta og væla yfir því að Norðurlönd tengdu væntanleg lán sín til Íslendinga við afgreiðslu AGS. Icesave skuldirnar eru smáaurar í þessu samhengi. Það er frálett að tala um eitthvert samsæri stórra þjóða gegn Íslandi að krefjast þess að Íslendingar standi við þessar lágmarksskuldbindingar. Menn verða að hafa í huga að íslenskir innistæðueigendur fengu hverja einustu krónu til baka meðan Bretar og Hollendingar eiga aðeins að fá hluta af innistæðum sínum í sama banka! Það væri stórslys fyrir Nýja Ísland ef Icesave-skuldirnar yrðu ekki greiddar.
Pétur

Þakka þér bréfið. Margir aðilar og þar með lánastofnanir hafa grætt og tapað í ólgusjó kapítalismans á undanförnum árum. Ég er búinn að horfa upp á lífeyrirssjóðina græða tugi, ef ekki hundruð milljarða á fjárfestingum sínum. Hvað þá með allt braskliðið. Flestir klöppuðu. Fæstir spurðu hverjir hefðu tapað í gróðærinu. En þegar eitthvað af þessu gengur tilbaka þá þykir þér rétt að ræsa út öryrkjana - eða hvað - láta þá blæða, og hina almennu launaþjóð, sem var rænd bönkunum sínum vegna þess að það þótti úrelt að þjóð ætti banka. Staðreyndin er sú að þótt Íslendingar vilji standa við skuldbindingar sínar þá er það jafnljóst að lánadrottnar okkar meina okkur um að leita réttar okkar. Þátt í því samsæri - og samsæri er það - hefir Evrópusambandið tekið og Norðurlöndin tekið undir og átt hlutdeild í. Ég fagna því að þingmenn skuli hafa gagnrýnt löðurmannlega framkomu "frændþjóðanna" á Norðurlöndum og undirgefni þeirra gagnvart AGS, handrukkara kapítalismans.
Kv.
Ögmundur