Fara í efni

HVERJIR VILJA LOSNA VIÐ ÖGMUND?

Enginn vafi leikur á að Ögmundur Jónasson var hrakinn úr ríkisstjórninni með bolabrögðum. Eins og öllum er kunnugt voru honum settir afarkostir í Icesave-málinu. Hvers vegna var það gert? Á þeim tímapunkti sem átti að neyða hann til að samþykkja Icesave og hrópa já með hinum ráðherrunum lágu engir samningar fyrir. Eða hvað? Hvað var Steingrímur J. Sigfússon að gera í Istanbúl? Sögur herma að hann hafi verið að reyna að ná ásættanlegum samningum við Breta og Hollendinga. Af hverju voru Ögmundi þá settir afarkostir þegar allir máttu vita að hann mundi ekki samþykkja ófrágengið mál - enda vita allir sem vilja að þannig geta og eiga mál ekki ganga fyrir sig í lýðræðissamfélagi.

Þá voru félagar Ögmundar óvenju snarir í snúningum að skipa nýjan heilbrigðisráðherra í hans stað. Það tók ekki sólarhringinn. Og ég spyr - af hverju lá svona mikið á? Af hverju var ekki einu sinni reynt að koma til móts við skoðanir Ögmundar - þá eðlilegu afstöðu að vilja ekki samþykkja ófrágengið mál?

Við þig vil ég segja Ögmundur: Ég skil ekki framgöngu félaga þinna gagnvart þér. Það er með ólíkindum ef til eru þeir aðilar innan flokksins sem allt í einu vilja ryðja þér úr vegi og kannski helst með þeim hætti að þú segir ekki aðeins af þér ráðherradómi heldur líka þingmennsku.

Ég hef talið og tel enn að þú hafir unnið VG mikið gagn, ég hef verið og er enn á þeirri skoðun að þú hafir verið einn mikilvægasti burðarás flokksins allt frá stofnun. Fjöldinn er á sömu skoðun.

En við þá sem gera nú atlögu að kröfugasta málsvara félagshyggju, jöfnuðar og þeirra sem minnst mega sín í samfélaginu vil ég segja: Gleymið því ekki að við kjósendur erum líka burðarásar flokksins. Ég er sannfærð um að mikill meirihluti stuðningsmanna VG hafa skömm á því hvernig nú er komið fram við Ögmund Jónasson. Að honum hefur ómaklega verið vegið. Jafn sannfærð er ég um að ef forysta flokksins og aðrir, sem nú vega að Ögmundi, skipta ekki snarlega um kúrs munu ansi margir stuðningsmenn VG gera eins ég; skila auðu í næstu kosningum. Ég hef mikla skömm á þessu öllu.
Helga Þorsteinsdóttir