Fara í efni

HEIMASÍÐAN GÓÐ EN FRAMGANGAN BETRI

Blessaður.
Ég tek undir með Pétri S. að heimasíðan þín er góð. Almennt skoðar þú öll mál af kostgæfni og í bréfum lesenda birtast margar raddir, þar er ekki einradda kór. En á þessari stundu eru mér efstar í huga þakkir til þín fyrir kröfuna um að lýðræði sé virt, að umræða í samfélaginu sé opin, að upplýsingar séu uppi á borðum og loks að framkvæmdavaldinu leyfist ekki lengur að troða á Alþingi. Af þeim vinnubrögðum hélt ég að allir hefðu fengið nóg þegar Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur deildu og drottnuðu í Stjórnarráðinu. Eru vinstrimenn virkilega búnir að gleyma þeim tíma? Það var vægast sagt ósvífið að hrekja þig  úr ríkisstjórn fyrir þær sakir einar að vilja vinda ofan af  ólýðræðislegum vinnubrögðum ríkisvaldsins undanfarna tvo áratugi sem ásamt fleiru leiddu þjóðfélagið í þær hrikalegu ógöngur sem það er nú statt í. Þetta verða allir vinstrimenn að hafa hugfast þegar það hvarflar að sumum innan þeirra raða að freistast til að halda að tíminn sé svo naumur að ekki sé rúm fyrir lýðræðið.
Með kveðju,
Helga Þorsteinsdóttir