Fara í efni

VERÖLDIN AÐ HÆTTI ÞORSTEINS

Köguður kíkti af hól sínum um liðna helgi í morgunblöðum landsins. Annars vegar í viðtali við Morgunblaðið og hins vegar í stjórnmálaumfjöllun í Fréttablaðinu. Skyggni af þeim hól virðist hafa verið lélegt um helgina, en af því Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra, en umfram allt sjávarútvegsráðherra, gerir sér far um að skýra stjórnmálaástandið er ástæða til að fjalla nokkuð um það sem hann kallar, að draga málefnalegar ályktanir af pólitískum hræringum dagsins. Það er líka áhugavert að fara nokkrum orðum um þann heim sem Þorsteinn Pálsson sér þegar hann skyggnist um af þeim hóli sem hann stendur á.  

OECD skýrslan
 

Þorsteinn Pálsson fjallar um meint átök í VG og tekur útgangspunkt sinni í afstöðu manna til OECD skýrslu sem sú stofnun kynnti í fjármálaráðuneytinu á dögunum. Gagnrýnin sem flutt hefur verið fram á þá skýrslu hefur meðal annars gengið út á að rifja upp þá mærð og uppskrúfaða lof stofnunarinnar sem lesa má í fyrri skýrslum hennar um íslenska efnahagsundrið, sem hrundi til grunna. Skýrslan hefur einnig verið gagnrýnd fyrir frasakenndar ályktanir sem dregnar eru af ástandinu í heilbrigðis- og menntamálum, án sérstaks rökstuðnings eða úttektar. Svo virðist sem hinar almennu ályktanir sem stofnunin leyfir sér að draga í þessum málaflokkum byggist á pólitísku mati innlendra sérfræðinga sem fóðra OECD á upplýsingum enda verður því ekki trúað að djúp greining af hálfu stofnunarinnar sjálfrar, t.d. á heilbrigðiskerfinu, geti leitt til niðurstöðunnar sem stofnunin setur fram í þessum málaflokki. Niðurstöðu sem hún hefur raunar birt í fjölda ára og nokkur "cut and paste" bragur á umsögninni. Verulegur samdráttur útgjalda til heilbrigðismála, úr 10,4% af vergri landsframleiðslu í 9,4%, hefði einhvern tíma þótt tilefni til nokkurra lína í stórri skýrslu. Ekki skorti umfjöllunina hjá OECD þegar útgjöldin fóru úr 9,0% upp í 10% af vergri landsframleiðslu. Engin tilraun er gerð af hálfu OECD til að meta áhrif samkeppni í heilbrigðisþjónustunni, ekki er gerð athugun á þeirri "rjómagerð" (cream skimming) sem á sér staða í samskiptum lækna og sjúkrahúsa, svo dæmi sé tekið, ekkert mat lagt á afleiðingar þeirrar fákeppni sem samkeppnin á þessu sviði hefur leitt af sér. Ekki er gerð grein fyrir áhrifum fámennis á kostnaðinn í heilbrigðisþjónustunni, ekkert er fjallað um áhrif launa á þennan sama kostnað í kerfinu. Þess vegna verður að gagnrýna frammistöðu OECD.  

Valdatafl  

Gagnrýni af þessu tagi kallar Þorsteinn Pálsson valdatafl tveggja ólíkra heima innan VG. Kóngarnir eru Steingrímur J. Sigfússon sem hefur hvítt, fulltrúi raunsæisins, og Ögmundur Jónasson, fulltrúi hinna óábyrgu, sem stýrir svörtu mönnunum. Hvítur er maður OECD, svartur er andstæðingur OECD.   Þessi kassagreining gengur í gegnum grein Þorsteins. Svartur beygði hvítann, og forsætisráðherrann í Icesave-málinu og hyggst nú stýra svörtu mönnunum til sigurs, lætur kné fylgja kviði. Ögmundur Jónasson hefur verið talsmaður fyrirvara í Icesave-málinu. Hann hefur verið talsmaður þess að um svo stórt mál þyrfti víðtæka samstöðu, samstöðu sem lýsir sér í yfirlýsingu hans um að Icesave-afgreiðslan hefði þurft að fara 63-0 á Alþingi. Það varð ekki, það sem Þorsteinn Pálsson horfir hins vegar framhjá var að margir nafngreindir sjálfstæðismenn áttu samleið með Ögmundi í afgreiðslu málsins og lögðu margir gott til lausnarinnar, ef marka má yfirlýsingar sem fram eru komnar. Þrátt fyrir hjásetu við endanlega afgreiðslu málsins má með rökum halda því fram að einmitt Sjálfstæðisflokkurinn undir forystu Bjarna Benediktssonar hafi unnið nokkurn sigur með framgöngu sinni í meðferð málsins í fjárlaga- og efnhagsnefnd. Valdataflskenningin er því mikil einföldun á flóknum veruleika rétt eins og skyggnið af kögunarhólnum sé frekar takmarkað.   Sá sem stýrir hvíta kóngnum er sagður raunsæismaður, Ögmundur er fyrirvaramaðurinn, sá óábyrgi. Hér gerir Þorsteinn hvítum upp skoðun. Fjármálaráðherra hefur lagt áherslu á að þingið sjálft ætti að fara vandlega yfir málið, og afgreiða að sínum hætti. Hann hefur jafnframt sagt að hann sé prýðilega ánægður með niðurstöðu Alþingis.   Málið snérist ekki um að vera með eða á móti tilteknu plaggi. Málið var miklu stærra en svo. Icesave-lausnin snérist um að takmarka þá ábyrgð, fjárhagslega og siðferðilega, sem búið var að velta yfir þjóðina vegna ógætilegs athæfis fjármálamanna sem flestir eru beintengdir, eða jafnvel hluti af hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins, sem tærust varð í Eimreiðarhópi sem bar fram kröfuna um Báknið burt. Bákn í þessum skilningi var til dæmis afskipti opinberra aðila af fjármálamarkaði. Málið snérist um hagsmuni þjóðar, ekki um sjálfbærni frjálshyggjunnar, og alls ekki um valdatafl í 20% vinstri flokki. Eða ber að skilja Þorstein Pálsson á þá leið, að OECD, Icesave að hætti Breta og Hollendinga, og þess vegna Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn séu hvítir á taflborðinu, en þeir sem vilja reisa rönd við innheimtumönnum hins alþjóðlega fjármagns, eins og Stieglitz nefndi þá, þeir eru svartir í valdataflinu? Hefði ekki mátt hugsa þessa analýsu örlítið áður en hún birtist?  

Söguskoðun  

Í Fréttablaðinu óttast Þorsteinn Pálsson að ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur stýri efnahagsmálum þjóðarinnar inn í haftabúskap eins og hann segir að gerst hafi vegna rangra ákvarðana í kreppunni miklu. Hér lúrir sú söguskoðun Sjálfstæðisflokksins undir yfirborðinu, að stjórn hinna vinnandi stétta, sem svo var nefnd, hafi hneppt þjóðina í höft og helsi. Er Þorsteinn búinn að gleyma stórfyrirtækinu, sem skuldaði 40% af öllu veltufé eina bankans í landinu, Landsbankans, og stóð með allt niðrum sig? Eða því hvernig úgerðarmenn þessara ára höguðu sér víða um landið? Of langt mál er að fara útí það hér, en stjórn hinna vinnandi stétta, lyfti Grettistaki í atvinnumálum, hún hreinsaði til í rústum íhaldsins og kom í veg fyrir fjöldaatvinnuleysi, upplausn og landflótta á millistríðsárunum. Þrjátíu ára höftin sem Þorsteinn Pálsson talar um þola ekki skoðun sem séríslenskt fyrirbrigði. Þekking á efnahagslífi nágrannaríkjanna afsannar söguskoðun Sjálfstæðisflokksins í þessum efnum.   Færum okkur nær nútímanum. Í Mrgunblaðsviðtalinu, sem áður er getið spyr Kolbrún Bergþórsdóttir um afstöðu Sjálfstæðisflokksins til umheimsins í evrópusambandsskilningi. Þar svarar Þorsteinn Pálsson með sömu tilhliðrunum og einfaldleika og í grein sinni í Fréttablaðinu. Umræðan um ESB er rökrétt í framhaldi af utanríkisstefnunni, sem forystumenn Sjálfstæðisflokksins mótuðu. Með inngöngunni í NATO, inngöngunni í EFTA og með samþykkt EES-samningsins.   NATO aðildin er sérmál, en inngangan í EFTA og EES, snérist um frjáls viðskipti. Eða í heimi Þorsteins: Um forystu Sjálfstæðisflokksins sem geranda á sviði frjálsra viðskipta. Viðmælanda Kolbrúnar er vitaskuld kunnugt um að í upphafi Viðreisnarstjórnarinnar í upphafi sjöunda áratugarins tókust menn á um frelsi í innflutningi. Annars vegar voru þeir sem trúðu á að frjáls innflutningur myndi leysa úr læðingi kraftana sem menn töldu að byggju í verlsunar- og þjónustugreinum en hins vegar voru hagsmunagæslumenn einkaumboðanna, stórkaupmenn og hagsmunagæslumenn þeirra. Tillögur um frjálsari innflutning runnu í gegn í öðrum stjórnarflokknum, Alþýðuflokknum, í Sjálfstæðisflokknum var annað uppi á teningnum. Það var Gylfi Þ. Gíslason sem átti stærstan þátt í EFTA inngöngunni, alveg eins og EES samningurinn verður ekki skrifaður á Sjálfstæðisflokkinn, heldur Alþýðuflokkinn og þess vegna Framsókn.  
Svona var þetta í stórum og smærri málum. Ekki var það Sjálfstæðisflokkurinn sem hafði forgöngu um að rjúfa áratuga einokun fisksölufyrirtækja í útflutningi á fiski, ferskum, frystum og söltuðum. Það var Jón Sigurðsson, ráðherra Alþýðuflokksins, sem gerði það við miklum mótmælum fyrirtækja sem nátengd voru Sjálfstæðisflokknum. Alveg burtséð frá því hvort eða hverju þessi forysta krata skilaði þá er ekki hægt að búa til nýja sögu með tilhliðrunum eða gleymsku af þessu tagi.  

Stöðumat  

Hin hvít-svarta veröld kemur víða við sögu. Það er gott ef VG svíkur kjósendur sína. Því betra eftir því sem þeir svíkja meira. Með því að svíkja meira verða þeir enn ábyrgari. Þeir eru enda bara í ríkisstjórninni til að framfylgja stefnunni sem Sjálfstæðisflokkurinn mótaði! Athyglisvert stöðumat, enn athyglisverðari söguskoðun. Hvítt verður svart, og svart hvítt. Kassakenningin aftur. Valdataflið.  
Hernaðarleg staða Íslands hefur minnkað segir Þorsteinn Pálsson. Ekki rétt. Hernaðarleg staða þarf ekki að minnka þótt Bandaríkjamenn ákveði að flytja hermenn sína, tól og tæki úr landi. Hernaðarleg staða Íslands, eða geópólitísk staða landsins, eins og Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, orðar það, styrkist dag frá degi. Þarf í þessu sambandi ekki annað en skoða opinberar yfirlýsingar starfsmanna ráðandi ríkja ESB til að fá á þessu staðfestingu. Þar fyrir utan hefur Björn Bjarnason gert grein fyrir þessari stöðu Íslands með skýrum og afskaplega sannfærandi hætti. Stjórnmálamönnum sem óska þess að þeir séu teknir alvarlega ber að ræða framsetningu Björns Bjarnason, leiðaraskrif Páls Baldvins Baldvinssonar um Kanadavinkilinn, á nákvæmalega sama hátt og þeim ber að ræða krónukenningu Stieglitz sem áður er minnst á.   Mér finnst Ögmundur, að veröldin að hætti Þorsteins sé af öðrum heimi. Það er eitthvað sem stemmir ekki.Kögunarhóllinn öðlast alveg nýja merkingu, að hugtakið megi rekja til köguðar í merkingunni varðmaður, en þá er spurningin hvað er hann að verja?, Fortíðina, eins og þú hefur bent á, eða hugmyndafræðina um báknið burt?
Ólína