Fara í efni

MESTU MISTÖK ASÍ

Sæll Ögmundur Jónasson.
Ég viðurkenni að ég hef fram undir Icesavemálið verið svolítið tortrygginn á þig sem stjórnmálamann. Það botnar í því að mér mislíkaði alltaf sú mismunun sem var á milli okkar sem nú erum í Eflingu og ykkar sem voruð í BSRB. Mér fannst þú oft full ósveigjanlegur i afstöðunni þegar þú fórst fyrir BSRB fólkinu en ég verð að hrósa þér fyrir Icesavemálið. Það skaltu hafa þökk fyrir. Þú skalt líka hafa þökk fyrir að benda á misbrestina í röksemdafærslunni hjá OCDE samtökunum. Ég verð í þessu sambandi að viðurkenna að ég hafði alls ekki áttað mig á samhenginu milli málflutnings Alþýðusambandsins og velferðarkerfisins og hagsmuna alþjóðabankans. Ég fæ ekki betur séð þegar ég rifja upp málflutning minna manna en að þeir hafi beinlínis verið að leggja til atlögu við velferðarkerfið í samvinnu við atvinnurekendasamtökin og Alþjóðabankann. Ég sat fund í sumar og tók undir kröfur okkar manna en viðurkenni eins að þar fór ég villur vegar. Ekki held ég að Ásmundur Stefánsson hefði fallið í svona pitt enda hann virtur hagfræðingur sem ég mat alltaf mikils. Nú eru þetta mest strákar með verslunarmenntun sem stjórna sjálfu sambandinu þótt ekki eigi það við um mín samtök. Krafa Alþýðusambandsins um niðurskurð í velferðarkerfinu i sumar eru sennilega mestu mistökin sem samtökin hafa gert síðust tíu árin.
Hafðu þökk fyrir að hrista svolítið upp í mér.
Gunnar