Á FRAKKA SKÁLDS

Uppnám og vanstilling fer nú eins og vindhviða fyrir dómkirkjuhorn. Sá sem því veldur er Davíð Oddsson, ritstjóri. Ég skil ekki að menn skuli nenna að fá útrás fyrir óánægju sína í Davíð Oddssyni. Ég er svo sem engin sérstök áhugamenneskja um Davíð, en mér finnst hann ekki njóta sannmælis þegar menn eru að reyna að staðsetja hann í íslenskum stjórnmálum, staðsetningu sem menn nota svo til að sannfæra sig um að hann muni misnota Morgunblaðið sem sumpart á sér glæsta sögu og hefð, sem íslenskir blaðaunnendur ættu að meta.  
Án þess að draga fjöður yfir þá skoðun mína að mörg mistök voru gerð á efnahagssviði á löngum fosætisráðherratíma Davíðs Oddssonar þá held ég að sagan muni ekki skilgreina hann sem einskæran sérhagsmunagæslumann, fjarri því. Rithöfundur er ekki sérhagsmunagæslumaður. Ég er til dæmis ekki viss um að Davíð stjórnmálamaðurinn sé meiri einkavæðingasinni, en til dæmis blairistarnir í Samfylkingunni, ungu veltalandi karlarnir sem virðast stundum gangast upp í daðri við auðmenn og athafna.  
Ekki nýtti Davíð Oddsson sér hin meintu gríðarlegu völd sín til að einkavæða í heilbrigðisþjónustunni, eða var það? Alls ekki, og engum hefur dottið í hug að spyrja hann útí einmitt þetta. Kannski er skýringin sú að hann hefur séð, og gerir sér grein fyrir því, að veikt fólk og auðmenn í fjárfestingarhug eiga fátt sameiginlegt. Kannski veit hann af reynslu sinni að sjúklingamarkaður í fámennu landi er eins og uppgangur ungu bankastrákanna, grínið tómt. Hvernig var það, var það ekki Davíð Oddsson, sem stakk upp á og setti nýtt háskólasjúkrahús á dagskrá? Ég man ekki betur.   Ekki var það Davíð Oddsson, stjórnmálamaðurinn, sem lét sér detta í hug að setja upp heila ríkisstofnun, Sjúkratryggingar Íslands, til að þykjast starfa á markaði fyrir heilbrigðisþjónustu sem enginn er. Það var fyrst eftir að stjórnmálamaðurinn Davíð hafði yfirgefið stjórnmálin og Guðlaugur Þór og Samfylkingin voru komin í ríkisstjórn að búin voru til samkeppnisleiktjöld utan um veikindi fólks og er Davíð þó vel liðtækur í leikhúslífinu.   Þessar staðreyndir segja mér alveg jafn mikið um stjórnmálamanninn Davíð eins og   feilinn sem hann gerði þegar hann hélt hann gæti treyst bankastrákum úr Heimdalli fyrir viðskiptafrelsinu, meðal annars með því að draga úr eftirliti ríkisins.  
Óskar Magnússon upplýsti í Kastljósi sjónvarpsins að hann hefði tékk á áskrifendakartóteki Moggans. Davíð Oddsson verður í öðru og hann hefur alla burði til að geta gengið í og slitið vetrarfrakkanum, sem hitt skáldið, Matthías, skildi eftir sig þegar hann fór.    
Ólína

Fréttabréf