Fara í efni

YKKAR AÐ SÝNA KJARK

Sæll Ögmundur.
Ég skora á þig og þingmenn VG að samþykkja Icesave samninginn. Það er búið að sýna fram á að þjóðin hefur efni á honum og ábyrgðin er klárlega okkar, lagalega og siðferðilega. Á sama hátt og ábyrgðarmaður þarf að borga skuld þess sem hann gengst í ábyrgð fyrir. Alveg sama þó skuldarinn hafi hagað sér óskynsamlega. Það er ekki þar með sagt að maður sé sáttur, en þetta verður að gera. Það er ykkar að sýna þann kjark að taka þessa ákvörðun fyrir hönd þjóðarinnar í stað þess að vera í bullandi stjórnarandstöðu og hafna samningnum og koma okkur í enn meiri erfiðleika en ella. Ekki spila eftir skoðanakönnunum frá degi til dags eða blogg-röfli. Við höfum tvo slæma kosti og sá verri er að hafna samningnum. Það hefur nánast engin umræða farið fram um það hvað tekur við ef samningurinn verður felldur. Líklega má búast við að stóru erlendu lánin verði fryst. Vaxtaálagið helst áfram mjög hátt en það þýðir gríðarlegan útgjaldaauka fyrir þjóðfélagið næstu misserin. Orðspor landsins og traust bíður mikla hnekki. Það er eins og sumir haldi að það sé ókeypis staða að hafna samningnum og taka nokkra mánuði í þá áhættu að reyna að ná betri samningi. Gleyma því að á meðan eru öll lán með mun hærra vaxtaálagi en ella. Auk þess er samningsstaða og fjárhagslegt úthald þjóðarinnar afar lélegt, sem er ekki gæfulegt veganesti í svona umdeilda ákvörðun. Það er búið að svara öllum helstu gagnrýnisatriðunum samningsins. Vert er að hafa í huga að: • Vextir 5,55% eru ekki háir þegar að liggur fyrir að Bresk og Hollensk stjórnvöld eru sjálf að taka lán á rúmlega 4% vöxtum. Þetta eru ein hagstæðustu lán sem okkur standa til boða. • Ekki verður gengið að helstu eignum innanlands þó greiðslufall verði. • Það er endurskoðunarákvæði í samningnum ef efnahagserfiðleikar verða. • Búið er að útbúa margvíslega fyrirvara. • Við höfum þegar samþykkt lágmarkstryggingarvernd, sem hefur margoft verið staðfest af ráðamönnum. • Íslenskar eftirlitsstofnanir gáfu bönkunum gæðavottorð. • Ef við hefðum beðið fram á sumar til að borga út af þessum reikningum þá hefði orðstýr Íslands orðið mun verri en ella þ.a. aðkoma Breta og Hollendinga við uppgjörið sjálft dró úr þeim skaða. • Því lengur sem Icesave málið dregst því lengur tefst uppbyggingin í þjóðfélaginu. Við höfum samþykkt lágmarkstryggingarvernd, en svo hlálega vill til að við þurfum að fá lán hjá Bretum og Hollendingum til að standa skil á henni. Svo teljum við okkur geta samið betur. Er ekki í lagi Sjálfstæðismenn eru búnir að hanna atburðarrás n.k. gildru sem vefst þéttar og þéttar um ríkisstjórnina. Vissulega vill maður ekki borga þennan Icesave reikning, en ábyrgðin er okkar og öxlum hana og hættum þessu væli. Síðan skulum við taka á þessum skúrkum sem komu okkur í þetta. Þetta er ekki mál sem á að gera að þjóðrembumáli. Það eru ekki allir vondir við okkur. Það var fólk á okkar vegum sem snuðaði nágrannaþjóðir okkar og okkur sjálf. Ef samningurinn fellur og stjórnin fellur þá munu Sjálfstæðismenn komast að og ganga frá mjög svipuðum samningi. Ég missti hluta af mínum sparnaði vegna hruns Glitnis banka og sem eitt af mörgum fórnarlömbum hrunsins og sem kjósandi Vinstri grænna til margra ára þá finnst mér óþolandi að horfa upp á suma þingmenn Vinstri grænna skemmta skrattanum og Sjálfstæðismönnum þessa dagana með sundrung og ákvörðunarfælni.
Kristján Gunnarsson

Þakka bréfið sem hefur beðið birtingar í nokkra daga. Atburðarásin síðustu daga færir okkur sönnur um að "ákvörðunarfælnin" sem þú nefnir svo er ekki fyrir hendi, hvað þá meint "gildra" sem Sjláfstæðisflokkurinn á að hafa egnt fyrir mig og aðra þingmenn VG sem hafa gagnrýnt Icesave-samninginn og málsmeðferð hans, heldur hefur málið snúist að hafa þolinmæði og yfirvegun til að hrapa ekki að ógrundaðri niðurstöðu. Nú er að sannast að tíminn hefur verið til góðs og sú breiða samstaða sem hefur myndast hefur ekki spillt málinu heldur bætt það. Við höfum auk þess ekki leyfi til þess að ganga frá þessu risamáli með klofið þing og þjóð. Við í VG höfum alltaf talað fyrir lýðræðislegum vinnubrögðum og eigum ekki að hverfa frá þeirri afstöðu þótt völdin séu nú hjá okkur.
Kv.
Ögmundur