VARÐANDI HÚSNÆÐISMÁL: HVAR ERU RÖKIN?

Ég er einn af þessum aðilum sem hafa misst ofan af sér húsið eftir hrun bankakerfisins þó svo að það hafi gerst af öðrum orsökum. Þetta var í byrjun ársins og hefur mér verið gert ljóst frá upphafi að þess sé óskað að ég rými húsnæðið hið fyrsta þó ekki hafi verið gerð nein tilraun til útburðar, sem ég er þakklátur fyrir og virði við viðeigandi bankastofnun. Mér hefur verið gerð grein fyrir því frá upphafi að það samræmdist ekki verklagsreglum bankans að leigja húsnæðið út, reglan sé sú að fólk flytji út svo, hægt sé að slá mati á og selja eignina...... Við þær aðstæður sem skapast hafa á fasteignamarkaði eftir hrun bankanna er það orðið eins og hver annar lottóvinningur að selja eign, ekki síst hér úti á landi. Þar sem illa hefur gengið að fá bankann til að leigja mér hef ég verið að leita logandi ljósi að hentugu leiguhúsnæði með öllum ráðum í langan tíma en árangurslaust vegna gríðarlegrar eftirspurnar. Nú að undanförnu hef ég svo verið að kanna hjá fasteignasölum möguleikana á því að taka á leigu húsnæði sem ég hef rekist á að stendur autt og til sölu. Þá kemur það í ljós að þetta eru í flestum tilfellum eignir sem Íbúðalánasjóður eða bankarnir hafa leyst til sín, losnað við ábúendur og hafa ENGAN vilja til að leigja út og fá þannig inn einhvern pening til að standa straum af þeim kostnaði sem því óneitanlega fylgir að halda úti fasteign!!! Þetta er mér með öllu óskiljanlegt. Í ljósi þeirra loforða sem ríkisstjórn félagsmála og jafnaðar gaf hér fyrir nokkru síðan og ekki síður í ljósi þess ástands sem hér ríkir. Að fyrirtæki og stofnanir í eigu þegna þessa lands fái athugasemdalaust að tapa stórfé með því að neita eigendum sínum um afnot af eignum sem eru með réttu sameign íslensku þjóðarinnar. Hvernig má þetta vera ??? Ef einhver aðili er tilbúinn til og getur borgað á bilinu eina til tvær milljónir á ári fyrir afnot af húsnæði sem engum nýtist, af hverju er það ekki hægt? Og af hverju samræmist það ekki verklagsreglum þessara stofnana? Er afkoma þessara stofnana svona gríðarlega góð að það sé réttlætanlegt að þær hafni milljóna eða tugmilljóna innkomu í hverjum mánuði. Er verið að fíflast með þjóðina. Er kreppan bara hjá okkur launþegum og bótaþegum?? Gilda ekki sömu lögmál um fjármálastofnanir í eigu ríkisins og önnur fyrirtæki að þurfa innkomu til að komast af. Ég er ekki talinn illa gefinn dags daglega en mér er fyrirmunað að skilja hvernig þetta má vera og hef reyndar engan hitt sem getur fært haldbær rök fyrir þessari endemis þvælu. Með bestu kveðju,
Gunnar I. Árnason

Fréttabréf