Fara í efni

INDRIÐI TOPPAR PER

Undarlegt þótti mér að lesa um það í Morgunblaðinu í morgun að Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, hefði skrifað bresku samninganefndinni til að spyrja hvort sú gagnrýni Ragnars Hall og annarra íslenskra lögmanna að Icesave samningurinn væri Bretum í hag og á kostnað Íslendinga hvað varðar skipti þrotabús, ætti nokkuð við rök að styðjast! Með öðrum orðum íslenskur samninganefndarmaður leyfir sér að spyrja gagnaðila okkar leiðandi spurninga til að veikja málstað Íslands á sama tíma og Alþingi ræðir fyrirvara til að vernda íslenska hagsmuni. Mér þótti nóg að heyra um Danann sem dreginn hafði verið upp úr einhverri skúffu í Brussel til að vera íslensku samninganefndinni til ráðgjafar en var svo ekkert annað en hrokafullur úrtölumaður gagnvart Íslandi! Þetta fengum við að upplifa þegar "ráðgjafinn" - minnir að hann heiti Per - opinberaði viðhorf sín á fundi í Háskóla Íslands á dögunum. Ekki átti ég von á að sú uppákoma yrði toppuð. Það gerði Indriði H. Þorláksson þó í Morgunblaðinu í morgun.
Grímur