Fara í efni

FORÐUMST MISSKILNING

Þetta hef ég soðið saman til að reyna að útskýra fyrir kunningjum hvers vegna ég tel skýringar Ragnars Hall á forgangi kröfuhafa rangar. Segjum að það væri enginn innistæðutryggingarsjóður. Innistæðueigendur eiga forgangskröfu, eru allir jafnréttháir og fá greitt í fyllingu tímans úr þrotabúinu í hlutfalli við sína kröfu og hve mikið innheimtist. Þe. segjum að það innheimtist 75% upp í samanlagðar forgangskröfur, þá myndi sá sem hefði lagt inn 20þús. evrur fá 15þús. og sá sem hefði lagt inn 1 milljón fá 750þús. Þetta er grundvallarregla í uppgjöri á þrotabúum. Nú tryggir íslenski innistæðutryggingarsjóðurinn upp að ca. 20 þús. evrum, þar umfram er ótryggt. Þe. sjóðurinn leysir kröfuna til sín, borgar innistæðueigandanum út upp að ca. 20þús. evrum og gerir kröfu í þrotabúið í staðinn, en við það getur sjóðurinn ekki eignast meiri rétt heldur en innistæðueigandinn hefur. Ef sjóðurinn fengi meiri rétt þá væri það á kostnað einhvers annars, sem geta ekki verið aðrir en ótryggðu hlutarnir, sem gæti þýtt að fyrir tilstuðlan innistæðutrygginganna fengi td. sá sem hefði lagt inn 1 milljón evra ekki nema 20þús. evrur út en hefði fengið 750þús. annars. Þegar tryggingarfélag greiðir út tjón og leysir við það til sín kröfur sem tjónþoli á hugsanlega á aðra, þá eignast tryggingarfélagið ekki meiri rétt heldur en tjónþoli hefur. Sömu reglur gilda um innistæðutryggingarsjóði. Nú gilda sömu reglur um kröfur bresku og hollensku innistæðutryggingasjóðanna, og það skiptir okkur ekki máli hvort þeir hafi leyst til sín kröfur og geri kröfur í þrotabúið í staðinn eða hvort innistæðueigendurnir geri það beint, hvorir sem er, fengju í sama hlutfalli úr þrotabúinu, þannig að viðbótartryggingar Breta og Hollendinga hafa ekki áhrif á það sem íslenski sjóðurinn fær úr þrotabúinu. Til að skýra málið frekar má einfalda það og segja að tveir einstaklingar verði fyrir tjóni, 1 milljón hvor, en skaðvaldurinn er ekki borgunarmaður fyrir nema 1 milljón. Þá eru tjónin gerð upp þannig að skaðvaldurinn fer í þrot og hvor tjónaþolinn fær 500þús. úr þrotabúinu og hvor verður að bera 500þús af tjóninu sjálfur. Nú hefur annar tjónaþolinn keypt tryggingu einmitt fyrir þess konar tjóni, þannig að tryggingarfélagið hans borgar honum allan skaðann, 1 milljón, og leysir til sín kröfuna á þrotabúið. En við það eignast tryggingarfélagið ekki nema þann rétt sem tjónaþolinn hafði, þe. að fá 500þús greitt úr þrotabúinu og verður að sækja hin 500þús. í bótasjóðinn sinn. Þetta breytir engu fyrir hinn tjónaþolann, hann fær eftir sem áður 500þús. úr þrotabúinu. En samkvæmt Ragnari Hall þá fær tryggingarfélagið viðbótarrétt, þe. að fá tjónið bætt að fullu, 1 milljón úr þrotabúinu, en við það verður ótryggði tjónaþolinn að bera sitt tjón sjálfur að fullu og er þess vegna í verri stöðu en áður og það getur augljóslega ekki staðist. Úr því sem komið er þá ræður innheimtuhlutfallið mestu um hve mikið fellur á Íslendinga og þar erum við á sama báti og Bretar, Hollendingar og stórir innistæðueigendur og ættum að taka höndum saman við þá til að hækka hlutfallið með öllum tiltækum ráðum. Hvað sem má segja um Icesave, þá ekki fella það vegna misskilnings.
Sveinn Sveinsson.

Þakka þér bréfið. Nú er málið ekki þannig vaxið, eins og ég skil það, að um sé að ræða skipti á venjulegu þrotabúi heldur um ábyrgð samfélagsins á grunntryggingu innistæðueigenda í fjármálafyrirtækjum. Kveðið er á um hana í tilskipun Evrópusambandsins - en túlkun hennar hefur okkur, sem kunnugt er, verið meinað að láta reyna á fyrir dómstólum, þ.e. hverjar eru skuldbindingar samfélagsins þegar kerfishrun verður. Í tilskipuninni segir að tryggingingasjóður, sem ætlað er fjármagna tjónið, sem margir vilja síðan meina að samfélagið sé ábyrgt fyrir, skuli njóta forgangs. Ég er ansi hræddur um að gagnstæð túlkun hefði átt erfitt uppdráttar í sölum Alþingis þegar tilskipunin var samþykkt þar á sínum tíma.  
Kv.
Ögmundur