VERJUM SJÁLFSTÆÐI OKKAR OG AUÐLINDIR!
Þörf á yfirburðarfólki Ögmundur, þú hélst góða ræðu í
Icesave-umræðunni en það voru ansi margir sem lásu á milli línanna
að þó þú verðir mótfallin þessari ríkisábyrgð, þá munir þú
samþykkja hana að lokum með þeirri afsökun að bjarga lífi
ríkisstjórnarinnar, t.d. með þeim rökum að verst af öllu vondu sé
að Sjálfstæðisflokkurinn komist aftur til valda.
http://eyjan.is/blog/2009/07/02/ogmundur-vill-stjornarandstadan-bara-fella-rikisstjornina-en-semja-svo-a-somu-notum-um-icesave/
Það er vissulega ógeðfellt af Samfylkingarmönnum að stilla
heiðarlegum þingmönnum upp við vegg með því að gefa í skyn að
stjórnin springi með falli frumvarpsins. En þegar sjálfstæði og
auðlindir Íslands eru í húfi þurfum við sérstaklega á að halda
yfirburðarfólki sem er ekki í fastataumi hjarðhugsunar heldur
stendur og fellur með eigin sannfæringu.
Ríkisstjórnir koma og fara, en við þurfum umfram allt að verja
sjálfstæði okkar og auðlindir gegn voldugum elítum
heimskapítalismans. Það á að knésetja Ísland með þessum samningum
og við þurfum að verja okkur. Ég skil áhyggjur þínar af hugsanlegri
endurkomu hrunstjórnarinnar (S+D) þar sem Sjálfstæðismenn muni
einfaldlega taka upp samningaþráðinn og landa lítið skárri samningi
og standa með honum. Það væri því ráð að fá Sjálfstæðismenn til
þess að lýsa því yfir að þeir muni styðja minnihlutastjórn VG
(hugsanlega ásamt Borgarahreyfingu og/eða Framsókn) komi til
stjórnarslita í kjölfar felldrar ríkisábyrgðar. Væntanlega eru
stjórnarandstæðingar tilbúnir til þess í ljósi þeirrar áherslu sem
þeir leggja á að frumvarpið verði fellt. Ég vona svo sannarlega að
þú takir þá skynsömu ákvörðun að fella frumvarpið, enda er það mun
betri kostur að fella frumvarpið og vona og að hrunstjórnin komist
ekki aftur til valda fremur en að sitja áfram með með samþykktan
samning og vona að þjóðin nái að borga allar skuldir sínar, halda
auðlindum sínum og sjálfstæði og komist hjá því að vera innlimað í
ESB.
Það ætti varla að vera erfitt fyrir VG-liða að semja við
stjórnarandstöðuna um ásættanlegt stjórnarmynstur ef Samfylkingin
gefst upp. Allt er hægt þegar mikið er í húfi. Eigi skalt þú óttast
endurkomu hrunstjórninarinnar Ögmundur. Hún mun hvort eð er
eingöngu gera byltinguna óumflýjanlega. Ekki þykir boðlegt fyrir
böðul að réttlæta starf sitt með þeim rökum að ef hann tæki ekki
starfið að sér, þá myndi einhver annar gera það, og þá hugsanlega
með enn verri hætti. Svo er með alla stjórnarherra, að ef þeir eru
beðnir um að gerast böðlar stórvelda yfir eigin þjóð, þá er hið
eina rétta að standa og falla með eigin sannfæringu og berjast til
þrautar fremur en að þiggja starfið til þess að valda minni
þjáningum en annar böðull myndi valda. Stór hluti þjóðarinnar
bindur vonir sínar við heilsteypta stjórnarliða sem finna til
þeirrar ábyrgðar sem felast í því að verja sjálfstæði og auðlindir
hennar. Til þess ert þú á Alþingi Ögmundur og í ríkisstjórn. Við
treystum á þig. Það er auðvelt að taka réttar ákvarðanir, en það
eru þær ákvarðanir sem gerir þér fært að standa áfram uppréttur og
horfast í augu við fólk, vitandi að þú gerðir hið rétta. Þú ert
þannig maður Ögmundur og vonandi verður þú ætíð þannig.
Með baráttukveðjum,
Þórarinn Einarsson