Fara í efni

UM HEILBRIGÐIS-ÞJÓNUSTU YFIR LANDAMÆRI

Hæstvirtur heilbrigðismálaráðherra.
Mig langar til að hjálpa Hreini K sem skrifaði nýlega lesendabréf að skilja hvers vegna menn og fyrirtæki hafa áhuga á því að flytja sjúklinga til Íslands. Þannig er að í mörgum löndum í Evrópu eru komnar reglur um hámarkstíma á biðlistum eftir aðgerð, t.d. 3 mánuðir. Ekki er alltaf hægt að mæta þessum kröfum og samkvæmt frægum dómi sem féll í Bretlandi fyrir nokkrum árum síðan er sjúklingum heimilt að leita læknisþjónustu í öðrum löndum og senda reikninginn til hins opinbera í sínu heimalandi sé biðtími eftir aðgerð ekki innan eðlilegra marka. Hið opinbera í þessum löndum reynir því að standa við þessar reglur um hámarkstíma á biðlista með því að kaupa þjónustu í öðrum löndum, þ.e. senda fólk til annarra landa í aðgrðir. Að auki hafa tryggingarfélög sem selja heilbrigðistryggingar áhuga á að gera samninga um meðhöndlun á Íslandi enda gæði og verð full samkeppnisfært. Til viðbótar við þetta má gera fjölmargar aðgerðir sem standa utan almannatrygginga. Nýlega hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hvatt sjúklinga innan EB til að nýta sér þennan rétt sinn. Af hverju eigum við ekki að veita þessa þjónustu eins og önnur lönd og skapa gjaldeyristekjur? Hvað varðar samkeppni við LSH tel ég að svona starfsemi geti allt eins styrkt LSH. Á sama hátt og sumir vilja meina að HR hafi styrkt HÍ með jákvæðri samkeppni.
Virðingarfyllst, SB

Þakka bréfið. Vandinn er sá að það fyrirkomulag sem þú vísar til er ekki komið inn í sjálfan lagaramma ESB-ríkjanna og hart deilt um skilmála við flutning/greiðslur yfir landamæri. Í næstu viku verður þetta meginefni á fundi heilbrigsðisráherra á hinu Evrópska Efnahagssvæði sem haldinn verður í Svíþjóð og hef ég í hyggju að sækja þann fund. Mun ég greina frá því sem ég verð þá vísari um þessi mál.
Kv.
Ögmundur