Fara í efni

UM ESB, HIMNARÍKI, ÞRÆLA OG RÓSAMÁL

Sæll félagi, þakka þér fyrir líkingarmálið um Himnaríki og þræla. Að Evrópusambandið hafi verið hugsað af mönnum sem teldu það vera himnaríki. Að þetta himnaríki hefði gert Evrópubúa að þrælum. Á Alþingi og eiga kjósendur ekki skilð burðugra líkingamál en þetta? Hvaða erindi á svona skrúðmælgi inn á Alþingi Íslandinga? Þegar við vorum báðir á vaktinni sem blaðamenn í gamla daga létum við stjórnmálamennina ekki komast upp með svona orðaleiki í fréttaumfjöllun okkar. Nú spyr ég þig sem félaga og vin, af hverju hefur þú sjálfur fallið í þessa gryfju að nota rósamál í stað þess að fjalla um raunveruleikann? Engum heilvita manni dettur í hug að líkja ESB við himnaríki. Engum heilvita manni dettur í hug að kalla þegna ESB þræla. Hvers vegna þú af öllum mönnum, vinur og félagi? Ég bara spyr.
Ólafur Gíslason

Heill og sæll. Bestu þakkir fyrir bréfið - og gagnrýni þína sem ég er þó alls ekki sammála. Það er staðreynd að sumir stjórnmálamenn og jafnvel heilir stjórnmálaflokkar (Samfylkingin) telja það allra meina bót að koma Íslandi í Evrópusambandið. Þá verði flest það sem úrskeiðis hefur farið fært til betri vegar. Stundum hef ég haft þá sterku tilfinningu að þessum aðilum finnist þjóðin "hólpin" innan vébanda ESB. Síðustu daga hef ég heyrt ýmsa halda því fram þá verði skuldir okkar jarfnvel settar til hliðar - nokkuð sem ég er ekki sérlega trúaður á, sbr, hlutskipti ESB-þjóðarinnar Letta. Þetta varð mér tilefni til að vísa til himnaríkis. Skírskotunin er sótt til afstöðu hér á landi í samtímanum en ekki til þeirra sem unnu að stofnun Evrópubandalagsins á sínum tíma.
Varðandi þrælslíkinguna, þá sagði ég einfaldlega að sú hætta væri fyrir hendi að sá sem fengi allt upp í hendurnar án baráttu endaði með þrælslund í stað baráttuþreks. Það er langur vegur á milli þessa annars vegar og að halda því fram að ég liti á Evrópubúar almennt sem þræla.´
Þú ert kannski ósammála þessum líkingum mínum  og skoðunum en má ég ekki hafa þær?
Hér er ræðan þar sem rætt er um himnaríki og þræla: http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090715T174420&horfa=1
Með bestu kveðju,
Ögmundur