Fara í efni

SYNDAAFLAUSNIR RÍKISSTJÓRNAR

Ég sé að ríkisstjórnin er búin að skipa nefnd, heitir nefndin eftir gömlum fréttaþætti á Stöð 2, 20/20. Í nefndinni - „20/20 - Sóknaráætlun fyrir Ísland“ - er einn fyrrverandi bankaráðsmaður Landsbankans. Það er bankinn sem þeir stjórnuðu Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason. Þessi banki seldi útlendingum vaxtakjör sem hann gat ekki staðið við og hneppti þjóðina í fjötra. Skipan nefndarinnar misbýður mér og ég spyr mig: Ætlar þessi ríkisstjórn ekkert að læra, lærði hún ekkert? Ég skora á þig Ögmundur að kynna þér lagaákvæðin um ábyrgð bankastjórnarmanna og svara mér svo hvort þér finnst nefndin vel mönnuð. Ég spyr mig líka hvaða einstaklingar fá hugmyndir um svona nefndir, og skipan þeirra? Hvers konar lið er í kringum ríkisstjórnina? Því miður held ég að það fjari hratt undan ríkisstjórninni þessa dagana. Það eina sem þið bjóðið upp á eru gamlar lummur, engin ný hugsun, ekkert hugmyndaflug, bara þetta kreppta hugarfar. Það þarf stefnubreytingu, djörfung og dug. Eitt að lokum: Ég kaus ekki ríkisstjórnarflokkana til að gefa mönnum syndaaflausn með því að setja þá í opinberar nefndir.
Hafsteinn