Fara í efni

MÉR NÆGIR EKKI BAUNADISKUR

Ágæti Ögmundur.
Ég hefði viljað fá þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja ætti um aðild að ESB. Ég er jafnframt afar ósáttur við þau orð Jóhönnu forsætisráðherra að þjóðaratkvæðagreiðsla skuli aðeins vera ráðgefandi en ekki bindandi. Ég er þeirrar skoðunar að enda þótt öðru jöfnu megi gera ráð fyrir því að fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi séu frambærilegt fólk hvað vitsmuni snertir þá standi þar hreint ekki allir okkur almennum borgurum svo langt framar. Lýðræði er ekki algilt hugtak hvað þá fulltrúalýðræði. Ekki þarf langt að sækja dæmi um skelfilega heimsku Alþingismanna og furðulegan málflutning. Síðan er það öllum ljóst að framkvæmdavaldið hefur full oft tekið stjórnarliða þeim heljartökum að engum hefur dulist að margir þeirra verða strengjabrúður í mikilvægum atkvæðagreiðslum. Ég er -og hef ævinlega verið ósammála þeim rökum að við eigum að sækja um og sjá hvað er í boði! Mig varðar nefnilega ekki neitt um hvað verður í boði fyrir það fullveldi Íslands sem sjálfstæðishetjur fyrri tíma náðu og guldu fyrir nánast með lífi sínu. Enginn baunadiskur nægir mér í gjald fyrir fullveldi þjóðar minnar.
Áni Gunnarsson