Fara í efni

HVERS VIRÐI ERU RÁÐHERRA-STÓLAR?

Sæll kæri Ögmundur...
Þó það virðist hafa lítið að segja, þá er ég óbreyttur borgari algjörlega mótfallin aðild Íslands að Evrópusambandinu og tel að aðildarumsókn án þjóðaratkvæðagreiðslu, siðferðislega ranga, ef slíkt þá ekki fer beinlínis í bág við stjórnarskrá lýðveldisins. Þar fyrir utan eru þetta afglöp sem í mínum huga jarða við landráð!  Ég ásamt þorra þjóðarinnar MÓTMÆLI!
Í 41. grein stjórnarskrárinnar segir:  "Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum."
Er allur kostnaðurinn viðvíkjandi aðildarumsókninni í fjárlögum, þá með samþykkt Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra?  Hvað mörgum heimilum gæti milljarður bjargað?
Málið er Ögmundur; að það á að þjösna aðildarumsókninni að Evrópusambandinu á herðar íslensku þjóðarinnar, án þess að menn kynni sér kosti og galla þess hvað hagsmuni Íslands snertir, og er Icesave landráðasamningurinn samtvinnaður þáttur þessa fárs!  Auðvitað verða alþingismenn og þjóðin að vita nákvæmilega um alla þætti aðildarinnar gagnvart hagsmunum þjóðarinnar, áður en hægt er að taka heiðarlega og markverða afstöðu til aðildarumsóknar. Ég tel að það sé skylda að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort eigi að leggja fram umsókn, og síðan um aðildina sjálfa!
Allt bendir til að Samfylkingin sé að nota Vinstri Græna til að koma vafasömum málum sínum í höfn. Þessi ríkisstjórn virðist snúast eingöngu um það.  Þeim tókst ekki að leiða Sjálfstæðisflokkinn á asnaeyrunum inní Evrópusambandið, en þeir hafa haldbetra tak á asnaeyrum VG.  Það er ekkert virkilegt VG mál sem hefur verið afgreitt af þessari ríkisstjórn, bara afgreiðsla á málum Samfylkingarinnar!  Stjórnarskráfrumvarpið sem átti að tryggja Íslensku þjóðinni eignarrétt á auðæfum hennar, var til skammar vegna tvöfeldni og aumingjaskapar!  Steingrímur J. situr eins og sofandi sauður við hliðina á Jóhönnu sem er stjórnað af öðrum, og mælir bót afglöpum Samfylkingarinnar í þessari ríkisstjórn sem þeirri fyrri!  Það er ærleg skömm að öllu þessu svívirðilega rugli Ögmundur!  Ráðherrastólarnir geta ekki verið þess virði!
Kv.
Helgi