Fara í efni

AMAGER Í EVRÓPUSAMBANDIÐ

Árið, sem Karl 5. keisari boðaði til ríkisþings í Worms til að jafna um Lúter, flutti danski kóngurinn inn fólk úr Niðurlöndum til að rækta grænmeti fyrir spúsu sína. Voru nýbúarnir settir niður á eyju sem nefnd var Amager. Eyjan var lengi vel fyrsti viðkomustaður Íslendinga, sem voru að fara til útlanda, og þar lentu fimm til sjö flugvélar frá Íslandi dag hvern, dagana fyrir hrun. Vinur minn sem situr í embættismannakerfinu í Dragör á Amager hafði samband við mig, þegar fréttir bárust af því að Íslendingar hefðu samþykkt að sækja um aðild að EU. Hann spurði mig hvort vitleysan á Íslandi ætlaði engan endi að taka, hvort Íslendingar áttuðu sig ekki á að þeir væru rúmlega tvöfalt fleiri en íbúarnir á Amager. Hann spurði mig í framhaldinu, hvort þjóð mín ætlaði að starfa við það eitt næstu árin og til langrar framtíðar, að vera í EU. Hann sagði mér líka að sextíu prósent af tíma embættismanna Danmerkur fara í huga að þeim fáu fyrirvörum sem Danir hafa gert við samstarfssamning Evrópuþjóða.   Ég sá ekki í ESB tillögunni mat á því, hvort 350 þúsund manna þjóð getur yfirleitt uppfyllt þær skyldur sem á aðildarþjóð leggjast. Vinur minn frá Dragör sagði að það væri að sumu leyti eðlilegra að Amager segði sig úr sambandi við Danmörku og sækti um EU aðild, en að Ísland yrði tekið inn sem meðlimsland. Þetta er ekki alvitlaust við nánari umhugsun.
Ólína