Fara í efni

SPURT EFTIR KASTLJÓS

Ég sendi þér þetta þar sem þú ert einn af þeim fáu stjórnmálamönnum sem ég held að séu í stjórnmálum fyrir aðra en sjálfan sig. Ég sendi þetta ekki á ráðherra þeirra ráðuneyta sem þetta heyrir undir þar sem ekki fara þeir að skamma sjálfan sig. (sbr. flestir fangar í fangelsum telja sig vera saklaus fórnarlömb) Ég er í námi erlendis og horfði rétt í þessu á Kastljósið með erlendri vinkonu minni. Ég skammaðist mín fyrir stjórnvöld eftir að hafa horft á Kastljósið. Og ég var nálægt því að skammast mín fyrir að vera Íslendingur þegar ég var að reyna svara henni. Ég hélt að ný stjórn myndi taka til hendinni svo um munaði. "Eru 13 manns að rannsaka þetta mál?!" "Er sonur ríkissaksóknarans pabbi eins af eiganda bankanna og ykkur finnst það í lagi?" "Vandræði með húsnæði og tölvur?" "Gáfuð þið henni ekki einu sinni skrifstofu?" "Er svona mikil spilling á Íslandi?" "170 milljónir??... voruð þið ekki að skrifa undir skuldbindingu um að borga árlega 35 milljarða næstu ár í vexti einungis af þessu IceSave máli" "Þið komið ekki beinlínis vel út úr þessu viðtali." "Hvað skuldið þið eiginlega mikið samtals?" Spurningarnar voru fleiri og í svipuðum dúr. Mér leið eins og við værum bananalýðveldi og mér varð hugsað að við munum aldrei komast að neinu í þessu, ekkert mun endurheimtast, enginn mun vera gerður ábyrgur, þetta mun aldrei upplýsast og það eina sem verður gert af fullri hörku er að rukka almenning um kostnaðinn af þessu öllu saman.
Hermann Páll Jónsson

Þakka þér bréfið Hermann. Þetta er mjög svo þörf hvatning sem ríkisstjórnin hefur tekið til sín og er að bæta úr svo um munar.
Með kveðju,
Ögmundur