SPILLA VÖLDIN?

Sæll Ögmundur.
Er Sigtúnshópurinn búinn að greiða upp sín húsnæðislán? Þið talið alltaf um sérstakar aðstæður vegna skattahækkana, hvernig væri þá að setja sérstök lög sem afnema vísitöluna sem hækkar alltaf mín húsnæðislán (með þínu samþykki, mannsins sem barðist harðast hér um árið vegna misgengis launa og lána). Þó að það sé flókið, þá eru sérstakar aðstæður nú. Ég trúi því ekki að þú sért eins og hinir sem láta völdin eyðileggja sig.
Ert þú búinn að gleyma baráttu þinni í Sigtúnshópnum? Hvað ert þú að gera núna með stuðningi þínum við skattahækkanir ríkisstjórnarinnar sem skila 2,7 milljörðum á þessu ári í kassann, en hækka lán íbúðarKAUPENDA um 8 milljarða? Hvað er svona flókið við að hækka tekjuskatt, eða lækka persónuafslátt sem hafa litlar breytingar á lánskjaravísitöluna. Ef þetta er svona flókið fyrir ykkur þá er fullt af hæfu fólki sem er atvinnulaust og myndi leiðbeina ykkur með þetta, ef að vilji væri fyrir hendi. Eins og þú veist þá er það fólkið sem hefur minnst milli handanna sem skuldar mest, og þarna er VG að svíkja það. Endurskoðaðu afstöðu þína og hugsaðu aftur til 1983
Sveinn Elías Hansson

Sæll og þakka þér bréfið. Valdafíkn mun vonandi aldrei ráða mínum gjörðum. Ég hef alla tíð barist fyrir því að halda fjármagnskostnaði (hverju nafni sem hann kallast, verðtrygging eða vextir) í lágmarki og fyrir þessu berst ég enn. Ég er sammála þér að fjármagnskostnaðurinn er okkar versta efnahagsmein nú um stundir. Við erum samherjar í þeim slag. Ábendingar þínar um samhengi skatta og vísitöluhækkana þykja mér réttmætar og að við hljótum að þurfa að taka á vísitölunni. Þetta gengur náttúrelga ekki.
Ögmundur 

Fréttabréf