Fara í efni

LÝÐVELDI VERÐUR AFRÍKA ESB

Sæll Ögmundur.
Mig langar að biðja þig að hugleiða þetta áður en þú greiðir atkvæði með Icesave samningunum:

Bandaríkjamenn sóttu fram á Kyrrahafi eftir 1943 og skömmu síðar stökktu Sovétmenn herjum nasista á flótta. Ísland var þá, eins og Danmörk, hersetið. Við þessar aðstæður, við þessar óvenjulegu aðstæður, reisti hin pólitíska yfirstétt Íslendinga lýðveldi og fékk 98% þjóðarinnar til að styðja sig. Eftir 65 ár er svo komið að sjálft lýðveldið er í uppnámi og Íslendingar hafa glatað sjálfstæði sínu. Þeir hafa nú, eins og svo oft áður, hagað sér eins og sveitamenn í samskiptum við aðrar þjóðir.

Seinni tíma saga Íslendinga einkennist af óraunsæi, tillitsleysi og eigingirni þjóðar. Íslendingar græddu á stríðsátökunum 1939 til 1945. Hér hlóðst upp gríðarlegt fé sem annars vegar var notað til að kaupa botnvörpunga og hins vegar til að flytja inn neysluvörur fyrir almenning og sveitamenn á mölina. Togararnir voru notaðir til að sækja karfa og þorsk á fjarlæg mið, til Grænlands og Nýfundalands, uns stofnarnir nánast hrundu. Við tókum ásamt öðrum þátt í þessari útrás og berum ábyrgð á afleiðingunum. Þá var sótt í næsta stofn. Síldinni var ausið upp. Það tók okkur rúmlega tíu ár að klára þann stofn. Og sauðsvartur almúginn gat farið að byggja sér einbýli, eða að minnsta kosti raðhús. Og allir eignuðust Volfswagen. Tímabundna kreppu í lok sjöunda áratugarins leystu menn að hluta til með því að flýja land. Kreppan varði á meðan Spánverjar og Norðmenn tóku að sér að byggja fyrir Íslendinga skuttogara. Á sama tíma háðum við þorskastríð á þeim grundvelli að Bretar væru að eyðileggja fiskimið okkar. Bretar höfðu veitt þér á lélegum síðutogurum með enn síðri áhöfnum. Út skyldu Bretar og inn á grunnslóð skyldi nú hleypt nýjum, öflugum skuttogurum Íslendinga.

Það tók Íslendinga 9 - 13 ár að ganga svo nærri þorsktofninum að nauðsyn þótti til takmarka frelsi manna til fiskveiða fyrir alvöru. 1983 var verðbólga komin í 100% eða meir og búið að taka upp verðtryggingu fjárskuldbindinga af því lífeyrissjóðir landsmanna, bankar og allir sameiginlegir sjóðir, sem gerðir voru af manna höndum voru, eins og náttúran sjálf, að tæmast. Þjóðin var aftur komin á það stig að éta undan sér. Fyrst át hún handritin, og gekk á þeim. Nú var hún farin að ganga á framtíðina.

1990 syrti enn í álinn. Friðun þorsksins bar engan árangur og sendinefndir Íslendinga sem fóru um heiminn til að "laða að erlenda fjárfesta" fóru bónleiðir til búðar. Útsöluprísar á raforku gátu ekki einu sinni lokkað hingað útlenda menn. það var alveg sama hvað menn skrifuðu undir margar viljayfirlýsingar við langborð með grænum dúk, ekki komu útlendingarnir með peninga. Þá bjuggu menn til svokallað frjálst framsal veiðiheimilda, sem hefur nú kallað yfir þjóðina mikið ófrelsi.

Úr því útlendingarnir vildu ekki koma með peningana til okkar þá ákváðum við að sækja þá til útlanda, í austur og vestur. Nú var ekki sótt í þorsk á Nýfundaland, eða norsk-íslensku síldina, eða golþorsk upp í landsteina. Nú var herjað á erlenda bankamenn og nútímasamfélagið Ísland, nútímamennirnir Íslendingar, settir að veði.

Sjálfur forsetinn barði bumbur, sté villtan stríðsdans hins talaða orðs, þar sem hann óð áfram með sjálfa rjómatertu ofneyslunnar upp á miðja kálfa, lofandi og prísandi fjármálalega yfirburði ungra heimóttarlega viðskiptafræðinga, sumra með pungapróf meistara frá Ameríku. Allt með vísan til sögupersóna, jafnvel skáldsagnapersóna. Gæti óraunsæið orðið meira? Við fundum Vínland. Við erum bestir, klárastir og kaldastir. Og 2005 og 2006, þegar leikklæðin voru farin að rakna upp, og rjómi ofneyslunnar var að þrána, stukku inn á þetta leiksvið fáránleikans fleiri leikarar. Fyrst forsætis-og fjármálaráðherra í þáverandi ríkisstjórn og svo forsætis-og utanríkisráðherra í næstu ríkisstjórn. Siðvillan, ruglið og óraunsæið náði aftur nýjum hæðum með framboði gjaldþrota þjóðar til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Framboðið kom okkur að minnsta kosti á kortið sagði utanríkisráðherra. Ísland hafði þá um hríð verið á forsíðum allra helstu blaða í heimi vegna bankahrunsins.

Og þetta heldur áfram. 43 klukkustundum eftir að neyðarlög voru sett á Alþingi vegna bankahrunsins gerðu fulltrúar íslenskra stjórnvalda, sviðsstjóri í utanríkisráðuneytinu og settur ráðuneytisstjóri í viðskiptaráðuneytinu, samkomulag við Hollendinga vegna Icesavereikninga Landsbankans. Samkomulagið var um lán, 1.1 milljarð evra með 6,7% vöxtum, ef marka má orð formanns utanríkismálanefndar í útvarpi í morgun. Íslendingar, alltaf sömu óvitarnir. Og nú er Icesave aftur á dagskrá. Skuldaviðurkenning á þjóðina upp á 640 milljarða króna, gengistryggt með 5,5% vöxtum. Sem sagt betri kjör en úthrópaðar drápsklyfjarnar sem Seðlabankinn er sagður leggja á landsmenn og fyrirtæki.

Niðurstaðan? Hún hlýtur að vera sú að lýðveldisstofnunin hafi verið mistök. Fólkið sem býr hér kann ekki fótum sínum forráð. Kjósendur hafa kosið yfir sig alþingismenn frá lýðveldisstofnun og með því lagt blessun sína yfir uppganginn, rányrkjuna og yfirganginn. Kjósendur framtíðarinnar geta hins vegar ekki greitt Icesave reikningana, hvorki efnislega með striti sínu og svita, né siðferðislega. Icesave samkomulagið er ígildi þess að við séum aftur orðin háð annarri þjóð. Ekki bara dönskum kóngi í fjarlægu landi, heldur breskri ríkisstjórn og hollenskri, gömlum nýlenduveldum. Ísland er með Icsave samningunum orðin Afríka gömlu nýlenduþjóðanna, Afríka ESB.

Í þessari stöðu Ögmundur kysi ég að leitað yrði til Bandaríkjamanna um hjálp. Við hefðum þá alltént sjálfstæði fylkisins, og öruggan gjaldmiðil.

Kveðja
Hafsteinn