Fara í efni

"SÉRSTÖK MEÐHÖNDLUN"

Gegnheill samtíðarmaður, Ollí Rehn, finnskur stækkunarstjóri ESB, útskýrði fyrir Íslendingum og aðjúnktum há-og sveitaskóla, að Íslendingar væru takk velkomnir í ESB. Bara að sækja og semja, án þess að gera sér vonir um sérstaka meðhöndlun. Þetta síðastnefnda "sérstök meðhöndlun" verður kannski lykilatriðið í skilningi þjóðarinnar á hvað gott er og hvað slæmt í samningum við ESB.
Íslensk stjórnvöld, íslensk yfirstétt eða landeigendur hafa í nokkur hundruð ára sögu landsins ávalt talið sig eiga rétt á og hafa krafist "sérstakrar meðhöndlunar" í samskiptum við útlendinga. Þegar grannt er skoðað einkenndust samskipti íslenskra fyrirsvarsmanna við Dani öðrum þræði af þessu. Samskiptin við frændþjóðirnar á Norðurlöndum, við Breta, við Bandaríkjamenn, afstaða íslenskra stjórnvalda til Kyoto, alls staðar er þess krafist, fyrir hönd Íslendinga, að land og þjóð njóti "sérstakrar meðhöndlunar". Í loftslagsmálum tölum við fyrirhafnarlaust um "íslenska ákvæðið" - undantekninguna - og hreyktum okkur eins og hanar á hól, þegar samningamenn Íslands í loftslagsmálum höfðu tryggt landsstjórninni "sérstaka meðhöndlun". Nýjasta dæmið um "sérstaka meðhöndlun" Íslendinga er svo samkomulag við frændur okkar annars staðar á Norðurlöndunum um að greiða ekkert fyrir þá námsmenn sem sækja sér skólamenntun í viðkomandi löndum. Áður tókum við við vaxtalausu láni úr hendi Færeyinga. Landsfeðurnir eru blindir, en er þjóð mín blind líka?

Fréttvefurinn AMX, ágætur, grímulaus og rammpólitískur, sagði í gærkvöld frá frétt sem birtist á alþjóðlegri fréttaveitu og gekk út á að samkvæmt samantekt Moody's hefðu fjárfestar evrópskir tapað um 38 milljörðum evra á lánum og skuldabréfum til 10 evrópskra banka í fyrra og að íslensku bankarnir þrír, Glitnir, Kaupþing og Landsbankinn, væru ábyrgir fyrir nær 90% af þessari fjárhæð. Í fréttaskeytum er ekki útskýrt hvernig það má vera að litlir kallar ofan af Íslandi gátu nælt sér í allt þetta lánsfé, en víst er að þetta tap Evrópumanna er ekki gleymt. Líklegra er að tapið sé geymt, og ekki óhugsandi að einmitt þetta framferði litlu íslensku kallanna verði tekið upp við samningaborðið þegar núverandi fulltrúar landstjórnarinnar íslensku og þeirrar evrópsku fara að semja um aðgangseyrinn að ESB. Eða er það svo að forystumenn jafnaðarmannaflokksins trúi því að stjórnvöld hér geti enn á ný krafist "sérstakrar meðhöndlunar"? Þjóð mín þakkaði auðvitað Færeyingum bróðurkærleikann sem kom fram í vaxtalausa láninu. En þjóðin átti auðvitað að bjóða þeim vexti sem lánuðu okkur skilyrðislaust. En hvað er með þessa þjóð? Hvers konar undirlægjur erum við, að vilja alltaf fá allt hjá öðrum þjóðum fyrir ekki neitt? Kannske við ættum að leita liðsinnis stækkunarstjórans Ollís, þess finnska, og biðja´nn að stækka innræti okkar og sjóndeildarhring?

Kveðja,
Ólína