RÆNINGJAR Í BOÐI SJÁLFSTÆÐIS-FLOKKSINS

Það var kærkomin hressing að mæta í dag, á sumardaginn fyrsta, í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn í Laugardal þar sem fram fór fjölskylduhátíð FL-okksins í Reykjavík og í Suðvesturkjördæmi. Engar einkaþotur lentu á Laugardalsvellinum í dag og engar þyrlur sveimuðu yfir svæðinu með mafíósa og flottræfla frjálshyggjunnar innanborðs, enda munu margir þessara stórglæpamanna farnir af landi brott með þjóðargóssið.

En það var margt um manninn og hug og maga var konunglega skemmt, m.a. með pylsum og kóka kóla og síðast en ekki síst ræningjunum hugljúfu úr Kardemommubænum. Ég fann fyrir einhverri hugarró í sjálfstæðismanninum mínum gamla góða þegar ég fylgdist með kúnstum smákrimmanna Kaspers, Jaspers og Jónatans - húðaletingjanna sem aldrei nenntu að stela nema til daglegra þarfa og miðað við lágmarks framfærsluvísitölu. Gott að þessir heiðursmenn voru ekki uppi á tímum græðgisvæðingar og siðleysis - ef svo hefði verið hefðu þeir aldrei komist að í barnaleikritinu góða.

Mig langar að þakka FL-okknum fyrir þessa kærkomnu stund þar sem við hjónin og margir aðrir fengu langþráða smáhvíld frá þeim sóðaskap og spillingu sem geggjuð hugmyndafræði hans leiddi yfir þjóðina á 18 ára valdaferli og endaði með algeru hruni.
Þjóðólfur

Fréttabréf