Fara í efni

LEYSUM ALÞINGI ÚR ÁLÖGUM

Sæll Ögmundur.
Það á ekki að sparka í liggjandi mann heldur hlú að honum og hjálpa honum á fætur. Þetta á við Sjálfstæðisflokkinn og forystumenn hans, það þarf að hjálpa flokknum úr viðjum frjálshyggjunnar, óþarfi að fara illa með flokk sem nýtur þó um fimmtungsfylgis meðal þjóðarinnar. Það þarf til dæmis að hjálpa flokknum að skilja mikilvægi Alþingis og leysa þingmenn hans og annarra úr viðjum flokksagans. Þess vegna á ríkisstjórnin, eða forsætisráðherra, að leggja fram þingsályktunartillögu um að fara í aðildarviðræður við ESB með einföld og skýr markmið. Í afgreiðslunni fælist vilji Alþingis og um leið væru þingmenn sem vilja aðildarviðræður frjálsir af að láta skoðun sína og sannfæringu sína í ljós, eins og stjórnarskráin gerir ráð fyrir að menn geri. Andstæðingar og fylgjendur aðildarumsóknar færa fram röksemdir sínar í umræðunum og berjast svo af alefli fyrir málstað sínum færi svo að sendimenn Íslands kæmu heim með tilboð sem vert er að leggja fyrir þjóðina. Í afgreiðslu af þessu tagi felst allt í senn, ný sýn á mikilvægi Alþingis í ljósi breyttra áherslna í stjórnmálalífinu og ný sýn á það hvert hlutverk alþingismanna á að vera. Þessi aðferð myndi líka upphefja hin ósýnilegu þingflokksbönd og verða til þess að alþingismenn yrðu að gera upp hug sinn sjálfir, en ekki af því einhverjir hagsmunahópar liggja yfir þeim eins og mara.
Tæknileg útfærsla af þessu tagi felur í sér að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er leyst úr álögum. Hún gæti þá greitt atkvæði með aðildarumsókn í samræmi við sannfæringu sína og jafnvel Bjarni Benediktsson og nokkrir aðrir fylgismenn Sjálfstæðisflokksins. Siv Friðleifsdóttir gæti slegist i þennan hóp og fjölmargir þingmenn sem vilja aðildarumsókn í laumi, en eru ekki vanir að geta fylgt sannfæringu sinni. Eftir gætum við staðið með skýran vilja Alþingis í afstöðunni til aðildarumsóknar. Er það ekki tilbrigði við þessa hugsun sem einmitt kom fram í búsáhaldabyltingunni? Er þetta ekki lýðræðisvæðing?
Aðjúnkt í sveitaskóla heldur því fram að þetta sé ekki hægt, Evrópusambandið taki ekki mark á svona umsókn. Þetta er fráleitt. Auðvitað tekur Evrópusambandið mark á því sem meirihluti löggafarsamkundu þjóðar ákveður. Það væri saga til næsta bæjar, ef lýðræðisríkin í Evrópu treystu sér ekki til að taka mark á vilja elsta löggjafarþings heimsins. Það er skylda Samfylkingar og Vinstri grænna að mynda ríkisstjórn sem stuðlar að manneskjulegra umhverfi í þessu harðbýla og fallega landi okkar. Það er skylda flokkanna að búa til umhverfi þannig að við getum aftur lært að hlusta á Íslendinginn í okkur, hlusta á skáldin, njóta íslenskrar menningar og vera stolt af því sem við erum og ekki bara því sem við eigum af veraldlegum gæðum. Það er líka skylda flokkanna að endurreisa Alþingi, virðinguna fyrir því mikilvæga starfi sem alþingismenn vinna. Er ekki upplagt að byrja á því að gera það með því að láta Alþingi ráða hvort farið verður í aðildarviðræður eða ekki? Ekki gæti Samfylkingin verið á móti þeirri lausn, jafnvel þótt þingsályktunartillagan um aðildarviðræður yrði felld. Það er líka vilji Alþingis. Hugsum stórt Ögmundur, hugsum lýðræðislega, þá verður auðveldara að vera Íslendingur.
Kveðja,
Ólína