Fara í efni

AUGLÝSING Í BOÐI SKÚFFU-GERÐARINNAR?

Ólína vekur athygli á nýjum gestum í strætóskýlum á höfuðborgarsvæðinu. Ber þar hæst formann FL-okksins, Bjarna Benediktsson og Illuga Gunnarsson fyrrum sjóðstjóra í Sjóði 9 hjá Glitni. Í þeim „Allt í plati" sjóði var gengið hreint til verks, eins og menn muna, og rétt eins og segir í kosningaslagorði FL-okksins. En skyldu þeir félagar Bjarni og Illugi vera í strætóskýlunum á eigin vegum eða eru þeir í boði einhverra kostunaraðila - fyrirtækja eða jafnvel vel stöndugra einstaklinga? Hvað með Hannes Smárason og co og Bjögga Gúmm? Þeir lágu ekki á liði sínu í árslok 2006 þegar Guðlaugur Þór fjarstýrði stórsöfnun frá „sjúkrabeði"  sínu en þannig orðaði hann vist sína á Landspítala - fullur samúðar.
Nú er reyndar búið að setja hámark á styrki lögaðila en eins og kellingin sagði: „Safnast þegar saman kemur frá mörgum skúffufyrirtækjum." Þannig geta 100 skúffukompaní lagt til FL-okksins samtals 30 milljónir króna eða rétt eins og FL-group gerði í desember 2006 í fjárfestingaskyni.
Það hlýtur að kosta mikla peninga fyrir FL-okkinn að auglýsa í sjónvarpi og útvarpi, birta flenniauglýsingar í dagblöðum og hanga þar á ofan út um allan bæ á auglýsingaskiltum. En einhverjir virðast vilja kaupa þetta. Það skyldu þó ekki vera þeir sem vilja ekki gera upp við efnahagshrunið, vilja breiða yfir allan sóðaskapinn og spillinguna og koma þannig í veg fyrir rannsókn og tilheyrandi refsingar þar sem við á? Það skyldu ekki vera þeir sem neita að horfast í augu við afleiðingar frjálshyggjunnar sem nú hefur sýnt sig með ömurlegum hætti að vera gjaldþrota og gjörspillt hugmyndafræði og - rétt eins og kommúnisminn - komin á öskuhauga sögunnar.
Þjóðólfur