ÞÖRF Á ALVÖRU UPPSKURÐI Á HEILBRIGÐIS-KERFINU

Heilbrigðiskerfið er ónýtt - Nú þarf alvöru uppskurð. Á gjörgæsludeildinni liggur magur skrokkurinn tengdur öndunarvél og ótal leiðslum og andar þungt. Liðnir góðæristímar hafa augljóslega farið fram hjá þessum manni. Rifbeinin standa út úr skinninu, hann er órakaður og ótal smáplástrar nánast þekja líkamann. Læknar hafa komið og farið og hrist hausinn. Hann þarfnast stórrar og tvísýnnar aðgerðar. Biðlistarnir eru langir. Rætt er um að aftengja manninn og hefja líknandi meðferð. Hann er af stórri og þekktri ætt. Einhverra hluta vegna hefur enginn komið að vitja hans. Óheillaþróun hefur orðið í íslenska heilbrigðiskerfinu á síðustu tæpum tveim áratugum. Áður fyrri var litið svo á að greiðslur fyrir lyf og heilbrigðisþjónustu kæmu úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Fólk átti ekki að þurfa að hafa stórfelldar fjárhagsáhyggjur þó það veiktist. En nýir siðir, ný gildi og hugmyndir komu með nýjum mönnum. Horft hefur verið til Ameríku og trúarsetningar nýfrjálshyggjunnar hafa verið í hávegum hafðar. Komið hefur verið á flóknu kerfi gjalda og álagna á sjúklinga og viðamiklu innheimtukerfi. Ómarkvissar, stundum gagnslausar og jafnvel eyðileggjandi aðgerðir, undir merkjum sparnaðar, hafa skilað stórlega skertri þjónustu og miklum óþægindum fyrir starfsfólk og þá sem síst skyldi, þ.e. sjúklingana. Furðulegt launakerfi hefur þróast um verk lækna, fyrst og fremst á sjúkrahúsum, sem færir sumum þeirra laun langt umfram það sem eðlilegt getur talist. Biðlistar hafa lengst gríðarlega og kostnaður farið algerlega úr böndunum. Lyfjamarkaðurinn er í höndum örfárra auðmana sem ráða markaðnum. Lyf hafa hækkað mikið í verði. Samkeppni er nánast engin. Hún er í orði en ekki á borði. Á þessu þarf að taka með vitrænum hætti. Það er löngu, löngu tímabært að skera heilbrigðiskerfið upp. Þetta er stór aðgerð en algerlega nauðsynleg. Fyrirmyndina að nýju heilbrigðiskerfi verður að sækja til nágrannaríkjanna, einkum í Skandinavíu, þar sem víðast er vel rekin og góð heilbrigðisþjónusta og viti menn, hún er innifalin í sköttum og nánast frí. Umhugsunarvert er að í Bretlandi, þar sem áður var eitt höfuðvígi frjálshyggjunnar, er nú nánast frí heilbrigðisþjónusta. Nú eru félagshyggjuflokkar við völd. Hafa þeir vilja og þor til þess að fara í alvöru uppskurð á þessum stóra og mikilvæga málaflokki? Munu þeir hafa lausnir og tillögur á borðinu þegar til kosninga kemur? Það var ekki svo í síðustu kosningum. Þarna er um mikið réttlætismál að ræða og sá flokkur sem byði ákveðnar, róttækar og skynsamlegar úrlausnir í heilbrigðiskerfinu, fyrir kosningarnar nú í vor, myndi svo sannarlega fá góðan vind í seglin frá kjósendum. Enginn flokkanna bauð kjósendum slíkt fyrir síðustu kosningar. Vonarstjarna skín á himni. Það er komin ný stjórn . Það er kominn nýr heilbrigðisráðherra. Hann hefur lengi gagnrýnt þá sem stýrt hafa heilbrigðismálunum. Nú er komin ögurstund. Mun hann sýna það áræði og þann dug sem þarf? Ábúðarfullur, hávaxinn og myndarlegur maður, með grásprengt hár og skegg, gengur ákveðnum skrefum inn á spítalann. Hann gengur inn í forherbergið og þvær hendur sínar vandlega. Hann skrýðist græna sloppinum, setur upp munngrímuna og gengur inn á skurðstofuna. Hann horfir um stund á sjúklinginn og hikar eilítið. Skyndilega réttir hann fram hendurnar með ákveðnu látbragði. Hnífur er lagður í lófa hans. Aðgerð er hafin. Sjá tengil á bloggsíðu mína: http://jgfreemaninternational.blog.is/
Bestu kveðjur,
Jóhann G. Frímann

Fréttabréf