Fara í efni

AUÐMENN EÐA...?

Ögmundur Jónasson, alþingismaður og ráðherra.
Blessaður Ögmundur og til hamingju með breytta tíma. Skrifa héðan frá meginlandi Evrópu þar sem ég stunda nám í alþjóðarétti og evrópurétti. Það er eitt sem fer alveg óskaplega í taugarnar á mér. Það er þetta sífellda
blaður um "auðmenn". Ég verð að segja eins og er að hér er um að ræða mafíuhyski en ekki auðmenn í neinum skilningi þess orðs.
Væri ekki rétt að kalla hlutina sínum réttu nöfnum ? Hér er greinilega um skipulagða glæpastarfsemi að ræða og sést það vel af öllu umfangi og eðli málsins. Slíkt þekkist víða um heim og má nefna Ítalíu fyrr og síðar og Rússland eftir að Yeltsin komst til valda.
Spilling og mafíustarfsemi það eru þau hugtök sem lýsa þessu best að ég tel. Þjófur er líka annað ágætt íslenskt orð yfir fólk sem tekur hluti/fé ófrjálsri hendi eða virðir ekki þann sama eignarrétt og þetta sama fólk virðir í orði kveðnu sjálft.
Þar með er ekki útilokað að menn geti auðgast á siðrænan máta, alls ekki, en slíku hefur ekki verið til að dreifa í þjóðfélagi sérhyggju, mafíustarfsemi og frjálshyggju (hugsanlega er þetta þrennt einn og sami hluturinn).
Í mínum huga hefur það legið fyrir frá upphafi, að þegar búið er að virkja lægstu hvatir mannsins er ekki von á góðu enda hefur árangurinn ekki látið á sér standa.
Ég var nú lengi með hugmyndir um það þegar Keflavíkursvæðið "rýmdist" að kosið yrði um það hverjir teldu sig frálshyggjumenn og þeir þá fluttir þangað á afmarkað og afgyrt svæði, eins konar fríríki, þar sem þeim væri frjálst að gera hvað sem þeir teldu réttast.
Almenningur ætti hins vegar heimtingu á því að vera laus við þetta lið og ætti alls ekki að þurfa að bera neinn skaða af því. Lengi hefur verið rætt um tvær þjóðir í landinu hvort sem er og því taldi ég þetta langréttasta og besta kostinn.

Icesave-málið væri líklega í öðrum farvegi ef þessi leið hefði verið valin á sínum tíma. Það er nefnilega áleitin spurning hversu langt eitthvert ofsatrúarfólk og sérhagsmuna/mafíugengi getur gengið í einu samfélagi. Það hljóta að vera einhver takmörk fyrir því !
Kær kveðja,
Kári