ÆTTU AÐ SKAMMAST SÍN!

Væri ekki viðkunnanlegt að íhaldið þegði aðeins meðan þjóðin er að taka til eftir þá? Sjálfstæðisflokkurinn er svo ómerkilegur í stjórnarandstöðunni að hann og allt sem  á honum hangir er til skammar:
1. Hvalagerð Einars Guðfinnssonar er ómerkilegt skítabragð.  Hún var ekki  gefin út til neins annars en að koma höggi á eftirmann Einars hver sem hann yrði. Einar hafði haft átta ár til þess að undirbúa reglugerðina en einmitt nú korteri áður en íhaldinu var sparkað út úr stjórnarráðinu þá gefur hann út reglugerðina. Reglugerðin gerir ráð fyrir að gefa Kristjáni Loftssyni hvalveiðikvótann í fimm ár. Og þá tekur alvaran við.  ALLIR þingmenn Sjálfstæðisflokksins vilja hefja hvalveiðar. Í þeim þingflokki er ENGINN sem tekur málstað ferðaþjónustunnar. Er það ekki athyglisvert að ekki EINN EINASTI þingmaður Sjálfstæðisflokksins skuli hafa minnsta áhuga á því að sinna hagsmunum  ferðaþjónustunnar. Sú var tíð að Sjálfstæðisflokkurinn sinnti sérstaklega samtökum gistihúseigenda. Nú  er enginn, enginn, í Sjálfstæðisflokknum sem sýnir lit á því. Er það ekki ótrúlega athyglisvert? Það er ekki athyglisvert að Framsókn skuli skrifa upp á hvalatillöguna af ástæðum sem ekki verða raktar hér en það er athyglisvert að Frjálslyndi flokkurinn skuli vilja gefa einum manni hvalveiðikvótann í fimm ár.
Nú vill svo hrapallega til að Steingrímur J Sigfússon varð eftirmaður Einars Guðfinnssonar.  Nú þegar er ljóst að pólitískt tapar Einar stríðinu; Sjálstæðisflokkurinn ber ábyrgð á hvalveiðum.  En óþverrabragðið er samt við sig. Steingrímur hefur upplýst að ekki snepill finnst í ráðuneytinu til rökstuðnings því að hefja hvalveiðarnar.
2. Tveir af fremstu trúnaðarmönnum Sjálfstæðisflokksins til áratuga Valur Valsson og  Magnús Gunnarsson neita af pólitískum ástæðum að hlýða kalli og að sitja í formennsku banakaráðanna. Það er lítilmannlegt þegar þjóðin rær lífróður að neita að setjast undri árarnar með henni. En hagsmunir Sjálfstæðisflokksins eru að sjálfsögðu æðri hagsmunum þjóðarinnar.
3. Þegar ríkisstjórnin vill breyta til um bankastjórn Seðlabankans þá snýst Sjálfstæðisflokkurinn á sveif með einum bankastjóranum á móti ríkisstjórninni og á móti þjóðinni. 
4. Þegar Geir H Haarde játar að hafa ekki talað við Gordon Brown þrátt fyri Icesave  hneykslið þá krefjast Sjálfstæðismenn þess að eftirmaður hans tali við Gordon Brown.
Það er eins og íhaldið muni ekki lengur að þau voru í ríkistjórn í 18 ár.
Þau ættu að skammast sín.
Bjarni Sigurðsson

Fréttabréf