AÐ KUNNA SIG, OG EKKI
Sæll Ögmundur.
Úr fjarska fylgist ég með ástandinu heima. Ég fylgist með
baráttunni um bankann - Seðlabankann. Sá á netfréttum rétt í þessu
að fjölmiðlar gera sér mat úr að Davíð Oddsson hafi ekki svarað
forsætisráðherra um starfslokin, sem sú ríkisstjórn æskir, sem þú
nú situr í. Það má færa rök fyrir því að Davíð Oddsson ætti að
víkja, og það má líka bera í bætifláka fyrir hann. Það má vera að
hann þurfi að víkja vegna þess gjörningaveðurs sem gengið hefur
yfir, og það má færa rök fyrir því að traust myndi vaxa á
Seðlabankanum, ef hann viki. Það má svo sem í þessu sambandi líka
færa rök fyrir því að traust á íslenska peningakerfinu myndi aukast
mjög, ef Seðlabankinn yrði lagður niður með manni og mús og norska
Seðlabankanum falið að sinna skyldum þess íslenska, með eða án
frónkrónunnar. Og það má held ég færa rök fyrir því að aðgerð af
þessu tagi efldi traust á íslensku fjármálalífi meira en uppsögn
sextíu og eins árs gamals manns. Að ekki sé minnst á sparnaðinn.
Mér hefur ávallt þótt miður að stjórnmálaleiðtogar skuli einfalda
vantraustið svo, að skella því á einn mann. Þessi trú felur
nefnilega í sér þá hugsun, að traustið mætti byggja upp, bara menn
fyndu einn réttan bankastjórann. Jafnvel ljóngreindur maður eins og
forsetinn féll i þennan fúla pytt. Er einmitt þetta ekki jafn
barnalegt og sjálfbirgingsleg útrásin? Er þetta ekki einmitt dæmi
um grunnhyggni að hrapa að niðurstöðu sem þessarri? Sjálf hef ég
veitt því eftirtekt að þú hefur ekki hnjóðað í holdgerving
vantraustsins, Davíð Oddsson, og fyrir það áttu hrós skilið, en ég
undrast mjög, þar sem ég stend álengdar og velti fyrir ástandinu,
að Hörður Torfason og kó skuli ekki breikka þann hóp sem mótmælin
beindust að. Frændfólk mitt og vinir á Íslandi hafa í sameinginu
tapað milljónum króna fyrir glæfraspil bankastjóra Landsbanka,
Glitnis og Kaupþings. Mér finnst ekkert athugavert við að beina
spjótum mótmælenda að þeim kónum fram að kosningum eða þeim sem nú
eru handhafar eignanna sem þeir sjálfir afsöluðu sér vegna
hræðslunnar við að lenda í klóm réttvísinnar, sem ég vona að þeir
geri. Davíð Oddsson tók held ég ekkert með sér úr stjórnmálum í
bankann af þessu tagi, ef frá eru talin lífeyrisréttindin. Hann er
held ég ekki þeirrar gerðar að hygla sjálfum sér. Ég dreg í efa að
hann yrði sakfelldur vegna yfirsjóna í bankastjórastóli, og mér
finnst að virða ætti rétt hans, eins og annarra, samkvæmt
samningum. Þetta eru að vísu samningar sem hann átti hugsanlega
þátt í að móta og samþykkja, en samningur er samningur. Menn geta
svo gert upp við þá pólitísku stefnu sem Davíð Oddsson hrinti hér í
framkvæmd í krafti formennsku sinnar í Sjálfstæðisflokknum frá
1991. Það gera menn hvorki bréflega, né með því að rifta samningum
eða breyta lögum. Það gera menn í kosningum. Það gera menn með því
að taka afstöðu til hugmyndafræðinnar, sem fæddi af sér útrásina og
eftirlitsleysið sem Sjálfstæðisflokkurinn ályktaði raunar um að
yrði aflagt á einum fjölmargra landsfunda, þar sem formaðurinn var
hylltur í lok dags. Það gera menn líka með því krefjast þess að
Sjálfstæðisflokkurinn, Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð geri
upp hringavitleysuna, sem þeir hafa haldið fram og haldið að
þjóðinni í krafti ótrúlegs fjár á 18 árum. Látum SA og
Viðskiptaráðið birta lista yfir framlögin sem runnið hafa í
áróðurinn fyrir því samfélagi sem nú er fallið til grunna.
Krefjumst þess að Vilhjálmur Egilsson, Þór Sigfússon og aðrir
máttarstólpar af sömu sort mæti í Kastljós sjónvarpsins til að
verja ruglið og vitleysuna sem þeir hafa látið fara frá sér sem
talsmenn samtakanna, kartels frjálshyggjunnar. Hvernig ætli standi
á því að venjulegir, harðduglegir atvinnurekendur sætta sig við að
láta þetta lið tala í sínu nafni, og taka að sér að borga fyrir
steypuna í ofan á lag? Lið sem samæltist um það fyrir orð PR
ráðgjafa í nóvember "að láta lítið fara fyrir sér á meðan þangað
til það versta væri afstaðið". Þetta er liðið sem draga á fram í
dagsljósið og spyrja út í samþykktir sínar og allt það fé sem notað
var í beinan og óbeinan áróður fyrir samfélagsgerð sem féll. En svo
er það Baldur ræfillinn. Málsvörn hans byggist á því að hann hafi
ekki haft meiri uppglýsingar um stöðu Landsbankans, eftir fundinn
með Darling drengnum í Lundúnum, en systir mín og hennar maður, sem
töpuðu hálfri þriðju milljón á þessum banka í hruninu. Baldur seldi
sinn hlut fyrir hreina heppni, en systir mín var bara óheppin. Er
það ekki svona sem frjálshyggjan skýrir örlög annarra. Sumir eru
heppnir, aðrir óheppnir. Lögfræðingurinn Baldur skilur ekki hvað
góð stjórnsýsla er. Góð stjórnsýsla felst til dæmis í því að losa
sig við hlutabréf, hætta hlutabréfa- og fastaeignabraski, áður enn
menn taka að sér virðuleg embætti ráðuneytisstjóra í
fjármálaráðuneytinu. Sá sem ekki gerir það, og er ráðinn til
starfans, hlýtur ella að lenda í vandræðum og sama má til dæmis
segja um fasteignabraskara, hvort sem þeir starfa í ráðuneytum, eða
á Alþingi. Þarna liggur feill Baldurs, að kunna ekki skil á góðri
stjórnsýslu að þessu leyti, og ótrúlegt að hann skuli hafa komist í
gegnum hið þrönga nálarauga matsnefndarinnar, sem mat umsækjendur
sem sóttu um starf ráðuneytisstjóra á sinni tíð? Þeir hafa kannske
ekki spurt hann um grundvallaratriði góðrar stjórnsýslu? Þyrftu
ekki embættismenn sem falla undir kjararáð að gera grein fyrir
eignum sínum, hagsmunatengslum, öðrum störfum og tekjum, alveg eins
og þingmenn. Auðvitað. Ég skora á heilbrigðisráðherra að leggja
fram í eigin nafni frumvarp sem tryggir þetta. En aftur að
Seðlabankanum. Ég fagna því að þú skulir ekki hafa stigið trylltan
dans kringum liggjandi mann, en ég hvet þig hins vegar til að velta
Sjálfstæðisflokknum upp úr gjaldaþrota hugmyndafræði og leiða þá í
eiginlegum og óeiginlegum skilningi um þann dimma dal sem þeir
skópu sameiginlega fyrir okkur hin, þ.e.a.s. að undanskildum örfáum
auðmönnum og nokkur hundruð aftaníossum. Var það misskilningur hjá
mér að halda, að víða í heilbrigðiskerfinu hafi menn, í skjóli
gjaldþrota hugmyndafræði frjálshyggjunar, komið sér fyrir liggjandi
á hryggnum undir kúnni Auðhumlu, eins og jötuninn Ýmir. Á beit hjá
ríkissjóði, eftirlitslaust, á meðan sjúklingar og skattgreiðendur
blæða? Varstu að ýja að þessu á Alþingi? Mér er sagt að svo hafi
verið? Þá ertu farinn að kunna þig í nýju embætti.
Kveðja,
Ólína