Fara í efni

STUÐNINGSMENN KVÓTANS VÍKI

Eitt stærsta réttlætismál þessarar þjóðar er tabu í umræðu alþingismanna. Í fjórðung aldar hafa sjávarplássin allt í kring um landið verið ofurseld vaxandi atvinnuleysi og hnignun í öllum skilningi hagsældar. Þetta eru afleiðingar þeirrar hagræðingar sem ljósberar markaðshyggjunnar sáu í því að setja mannlíf þjóðarinnar á uppboðsmarkað. Musteri þessa fagnaðar og veislusalur var reist fyrir gjafakvóta sem seldur var og fjármununum komið fyrir við enda Laugavegar í Reykjavík þar sem minnismerkið um gróskumikið mannlíf á landsbyggðinni gnæfir yfir umhverfið og ljósbrotin í glerkastalanum skipta um myndir eftir stöðu markaðsvísitölunnar. Þeir stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar sem treysta sér ekki til að aflétta ánauð fólks á Íslandi en hyggjast áfram styðja lénsherra kvótaauðsins eiga að stíga til hliðar fyrir næstu alþingiskosningar og viðurkenna í auðmýkt fyrir þjóðinni ótta sinn við fésýslumenn. Þetta á ekki síst við ykkur Vinstri græna sem ég hef þrátt fyrir allt vonast til að væruð boðberar nýrra gilda í íslensku samfélagi. Nú er sem aldrei fyrr tækifæri og ástæða til að reisa við gróandi mannlíf allt um kring landið með því að gefa fólkinu leyfi til að nýta þá auðlind sem rænt var af því með atbeina fulltrúa þess á Alþingi. Ekki tæki nema fáa mánuði að breyta sjávarplássunum í eftirsótt byggðarlög með vaxandi atvinnu, bjartsýni og hækkandi fasteignaverð. Þegar upp er staðið Ögmundur þá er gott og heibrigt mannlíf þar sem vinnufúsar hendur skapa verðmæti í sátt við umhverfi og auðlindir meira virði en hlutabréf í þjáningu auðhyggjunnar. Stjórnvöld eiga ekki að skapa atvinnu fyrir fólk í Bolungavík eða á Djúpavogi. Þau hafa aðeins þær einföldu skyldur að leyfa því fólki sem þar býr að bjarga sér á eigin forsendum, þeim forsendum sem forfeður þess og formæður nýttu sér til lífsbjargar og reistu að lokum gróskumikla byggð handa dugmiklu og djarffæru fólki.
Með jólaveðju.
Árni Gunnarsson frá Reykjum