Fara í efni

MÆLIR MEÐ NORÐLENSKUM UPPLESURUM

Sæll Ögmundur.
Það er stundum gott að hlæja í öllu krepputalinu. Ég var að skrá á bloggið mitt nýja sögu sem sýnir hvað hysterían getur blindað alla skynsemi hjá manni. Sagan er algerlega sönn. Hún er svona: "Allar byssur eru nú á hálfvirði! Eldri maður og kunningi minn á Suðurlandi, sem ég tala stundum við í síma, sagði mér í fyrradag að hann hefði verið að heyra það í fréttum að byssusala hefði tekið gríðarlegan kipp síðasta mánuðinn. Hann sagði að þetta gerðist alltaf þegar harðnaði á dalnum eins og nú. Við vorum að velta þessu fyrir okkur nokkuð. Ég var að spá í það hvort að menn væru að auka veiðar til búdrýginda í kreppunni en kunningi minn taldi það af og frá. Í flestum tilfellum væru menn að kaupa byssurnar í hernaðarlegum tilgangi, því að menn væru farnir að hafa trú á mögulegri borgarastyrjöld eða byltingu. Það fór óneitanlega um mann við þessar hugleiðingar og þetta sat í mér og olli mér töluverðu hugarangri. Svo var ég ég að væflast annars hugar í eldhúsinu í dag, þegar ég heyrði allt í einu auglýsingu í útvarpinu sem olli því að það var eins og kalt vatn rynni á milli skinns og hörunds: "Í þessari viku færðu allar byssur með 50 % afslætti ef þú sækir" ... Blóðið fraus bókstaflega í æðum mínum. Hvað var eiginlega í gangi?! Síðan kom niðurlagið á auglýsingunni: "Hrói höttur". Þá kviknaði skyndilega aftur á týrunni í sálartetrinu. Það varð spennufall. Ég sprakk úr hlátri! Ég hafði sem sagt heyrt "byssur" en það átti að vera "pizzur". Ég mæli með norðlenskum upplesurum í auglýsingum. Annað er hættulegt fyrir heilsu miðaldra kalla!" Ég hefði gaman af ef þú myndir birta þetta á síðunni þinni. Ég fylgist alltaf með henni.
Sjá: http://jgfreemaninternational.blog.is
Bestu kveðjur,
Jóhann Frímann