FJÁRMÁLATENGSL STJÓRNMÁLA-FLOKKA UPP Á YFIRBORÐIÐ

Sæll félagi og vinur. 
Var að lesa heimasíðuna þína eins og ég geri á hverjum degi og gladdist yfir því að sjá þú skyldir taka frá einn dag til þess að næra sjálfan þig.  Ég upplifði það nú í fyrsta sinn að sjá skýra stefnu VG sem birt var eftir flokksfund hjá ykkur nú nýverið,  Mér hefur fundist hingað til verið mest áberandi í stefnu VG umhverfismál og kvennréttindamál. Ekki vil ég gera lítið úr þeim málaflokkum en mér hafa fundist önnur stefnumál VG týnast vegna þeirra. 
Ég bíð spentur eftir atkvæðagreiðslu um ESB því að ég er ekki fylgandi því að við förum þar inn. Ég tel mig einnig vita af hverju hluti af því fólki sem vill í ESB er því fylgjandi. Það er vegna þess að það horfir fram á að geta fjárfest í íbúðarhúsnæði og séð lánin lækka en ekki hækka við hverja afborgun. Með öðrum orðum geta gert raunhæfara greiðsluplan.  Ef það er staðreynd að íslenska krónan sé ónothæfur gjaldmiðill vil ég frekar sjá hér norska krónu eða dollar.  Ég er hissa á því að enginn fjölmiðill skyldi gera sér mat úr umælum Bjarna Harðasonar fyrrverandi framsóknarþingmanns sem hann viðhafði í sjónvarpsviðtali en þar sagði hann að menn innan Framsóknarflokkins úr viðskiptalífinu hefðu fyrirskipað að flokkurinn skyldi halda áfram stjórnarsamstarfinu eftir síðustu kosningar hvað sem það kostaði.  Í ljósi þessara ummæla fyndist mér að allir flokkar kæmu með upp á yfirborðið öll sín tengls inn í atvinnulífið og hverjir eru að fjármagna þá.  Mér þætti líka gaman að vita það hversu margir alþingismenn sem sátu á þingi þegar kvótakerfinu var komið á, höfðu beina og óbeina hagsmuni af því að setja þau lög og hversu mikið þeir högnuðust  við þá lagasetningu. 
Að lokum vil ég óska þér og fjölskyldu þinni gleðilegra jóla og farsæls komandi árs með þökkum fyrir alla þá vinnu sem þú hefur lagt fram fyrir almenning í landinu.
Með jólakveðju,
Sigurbjörn Halldórsson

Fréttabréf