Ísland er land allsnægta þar sem svo til allir hafa þak yfir
höfuðið og raunverulegt hungur er enn afar fáheyrt. Flestir hafa
atvinnu og aðrir njóta styrkja til þess að sjá sér og sínum
farborða. Við verðum að leggjast á eitt að svo verði áfram og við
eigum enn tækifæri til þess að halda okkar góða samfélagi í
jafnvægi þrátt fyrir þá atburði sem hér hafa gerst undanfarið. Ég
geri ekki lítið úr fjárhagslegu tjóni þeirra sem misstu hlutabréf
eða bankabréf síðasta haust en hafið í huga að við komum án
veraldlegra auðæfa í þennan heim og förum yfir móðuna miklu án
þeirra. Þegar talað er um fátækt verður mér snögglega hugsað til
tveggja augnablika í mínu lífi.
Ég var staddur í Bóliviu, Suður Ameríku í október árið 1999 ásamt
nokkrum öðrum Evrópubúum. Við héldum til í höfuðborg landsins sem
heitir La Paz og er í rúmlega 4.000 metra hæð yfir sjávarmáli. Nótt
eina átti ég erfitt með svefn þannig að ég ákvað að fá mér göngu um
nágrenni miðborgarinnar, eftir að hafa gengið í um hálftíma var ég
skyndilega staddur í götu þar sem pappakassar voru í langri röð upp
við húsvegg, við fystu sýn virtist mér sem í þeim væri
einhverskonar vefnaðarvara en þegar ég skoðaði betur þá sá ég að í
kössunum sváfu lítil börn. Ég var að sjálfsögðu furðu lostinn þar
sem hitastigið úti var í kringum fjórar gráður og allra veðra von.
Daginn eftir fékk ég þá skýringu að foreldrar barnanna eiga engan
kost á að framfleyta þeim þannig að þau búa mörg hver á götunni frá
fjögurra ára aldri án foreldranna, þau halda hópinn til þess að
auka líkurnar á að komast af við þessi erfiðu skilyrði. Ég eyddi
smá tíma með börnunum og það var aðdáunarvert að sjá hversu vel þau
stóðu sig í lífsbaráttunni með samtakamætti sínum og
lífsvilja.
Í nóvember 2001 var ég í Kenya, Afríku í borg sem heitir Mombassa
og liggur að Indlandshafi. Ég fór ásamt þremur félögum mínum inn í
hverfi fátækra sem er gríðarstórt í þessari borg og saman stendur
af kofaskriflum af ýmsu tagi. Þegar við höfðum vafrað um í nokkurn
tíma heilsaði okkur ungur maður og eftir að hafa spjallað við hann
stutta stund bauð hann okkur í heimsókn til sín. Við þáðum boðið og
eltum hann síðan að litlum kofa byggðum úr leir og stráum, hann
bauð okkur sæti og kynnti okkur síðan stoltur fyrir konu sinni og
fjórum börnum. Í húsinu sem var um 10 fermetrar voru engin húsgögn,
aðeins teppi á gólfum, fyrir utan var einn bekkur þar sem við sátum
félagarnir fjórir. Ungi maðurinn og fjölskyldan sátu á jörðinni á
móti okkur. Hann spurði hvort við vildum ekki þiggja hjá honum
hressingu og þáðum við það með þökkum. Hann reiddi fram flösku með
göróttum drykk og eitt brotið glas, við létum það ganga á milli
okkar og nutum veitinganna. Stolt þessa gestgjafa rennur mér aldrei
úr minni, þau voru fátæk en samt tilbúin til þess að gefa af því
litla sem þau áttu án skilyrða.
Við skulum standa saman og hugsa vel um hvert annað, huga að því
sem skiptir máli í lífinu, vera þakklát og njóta þess sem við
höfum. Andleg fátækt er miklu alvarlegri en hin veraldlega. ´
Þórarinn Ívarsson
|