AÐILD AÐ EVRÓPU-SAMBANDINU: BANVÆN HUGSUN
Mér hefur lengi fundist þú sem verkalýðsforingi og alþingismaður
bera hagsmuni þjóðar þinnar mikið fyrir brjósti. Þú ert að mínu
mati fyrst og síðast lýðræðissinni þó annað heyrist.
Er það rétt skilið hjá mér að þú viljir fara til samninga við
Evrópubandalagið og láta svo greiða atkvæði um þann hugsanlega
samning?
Ég skil ekki þá sem horfa nú til Evrópubandalagsins í ljósi
viðbragða ríkjanna til fjármálakreppunnar þar sem hvert ríki er með
sér lausnir fyrir sig. Hollendingar þjóðnýttu Rebobankann í
Hollandi þvert á vilja Belga og Lúxenborgara þar sem þessi banki
starfaði líka. Þjóðverjar slitu sig úr samstarfi við önnur ríki
innan bandalagsins við lausn sinna mála einnig Bretar. Bretar, sú
hernaðarþjóð, hræddist stjórn okkar og þjóð það mikið að þeir
settu á okkur hryðjuverkalög. Sýnir þetta okkur ekki að hver hugsar
um sig þegar á hólminn er komið? Nema Íslendingar sem ætla að gefa
fiskimiðin og orkuna fyrir evruna. Þetta er sveitamennska ekkert
annað, banvæn hugsun fyrir land og þjóð.
Þessi tilhneiging að fækka gjaldmiðlum er hún ekki beinlínis
hættuleg lýðræðinu, skerðir hún ekki verulega svigrúm þjóðríkisins
til sjálfstæðrar ákvarðanartöku við hagstjórn, tekur hún ekki
ákvörðunarréttinn af þjóðríkinu? Samþykkt er vald hins sterkasta.
Sem svo leiðir til einhvers þjóðfélags sem þegnarnir vilja ekkert
endilega, þjóðfélags falins valds sem birtist oftast í miklum
andstæðum fátæktar og ójafnaðar.
Norðlendingur
Heill og sæll og þakka þér bréfið.
Hvað varðar Evrópusambandsaðild er ég þér sammála. Hún þjónar að
mínum dómi ekki íslenskum hagsmunum. Ég vil hins vegar að þjóðin
geri út um málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvernig henni yrði
háttað, um sjálft fyrirkomulagið, hef ég sannast sagna ekki sterkar
meiningar. Það er fyrst og fremst lýðræðið sem ég legg áherslu
á. Svo er náttúrlega hitt að í aðdraganada þjóðaratkvæðagreiðslu
myndi ég beita mér af alefli - gegn aðild.
Kv.
Ögmundur