Fara í efni

ÁGÆTU FÆREYSKU FRÆNDUR

Ágætu færeysku frændur,
nú finn ég að sálin mín hlær.
Fyrst var ég reisninni rændur
svo rættist einn draumur í gær,
ég frétti af láni frá frændunum bestu
sem færa nú þjóð minni hlýjuna mestu,
þá ást sem er okkur svo kær.

Lifna nú gleðinnar glæður
og glampinn sem einmana dó,
hann á nú svo bjartsýna bræður
sem björgina draga úr sjó,
þeir koma að landi, já, víst er það viska
sem veiðir úr hafinu spriklandi fiska
í fegurð og friði og ró.

Dagur sem mætti svo myrkur
fær máttleysi slegið á frest,
því indæll og einlægur styrkur
nú aftur í hugskoti sést.
Já, ástin hún skín gegnum úthafsins mistur,
nú eigum við vini og bræður og systur.
Hér birtist nú manngæskan mest.

Ágætu færeysku frændur,
nú finn ég að sál mín er klökk.
Er arðrændir íslenskir bændur
hér upplifðu kvöldin svo dökk
þá mættuð þið glaðir með fegurð í fjósið
og færður þeim ylinn og bjartasta ljósið,
já, fyrir það fáið þið þökk.

Einlægu, ástríku vinir,
ykkur skal færa það hrós
sem auðvitað heimt þeir hinir
sem hæddust að fölnandi rós.
Við vitum um hetjur sem hægt er að treysta,
sem hafa í sálinni einlægan neista.
Þið eruð hið lifandi ljós.

Kristján Hreinsson, skáld